Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 37
37
Út frá hefðbundnum skilningi á orðunum „skáldsaga“ og „sjálfsævisaga“
mætti ætla að á þeim væri sá eðlismunur að í sjálfsævisögu er leitast við að
fara rétt með staðreyndir úr fortíðinni en ekki nauðsynlega í skáldsögu. Sú
staðreynd að ekki sé hægt að finna óbrigðul formleg flokkunareinkenni
texta sem skera úr um hvort hann sé skáldskapur eða sjálfsævisaga – mörg
önnur einkenni gefa þennan mun þó sterklega til kynna26 – styður ekki þá
tilgátu að munurinn velti á kynningu á viðkomandi textum eða aðkomu
lesandans.27 Vitaskuld reiða flestir lesendur sig á kynningu á einstökum
verkum til að glöggva sig á því hvaða flokki bókmennta þau tilheyra. En
þeir myndu væntanlega fara aðra leið ættu þeir sjálfir að skilgreina muninn
á sjálfsævisögum og skáldskap. Kynningar útgefenda og annarra á slíkum
bókmenntaverkum geta verið trúverðugar einmitt vegna þess að lesendur
glöggva sig á þeim mun sem er á skáldverkum og sjálfsævisögum. Lesendur
vita líka að þeirra eigin viðbrögð breyta engu þar um því munurinn velt-
ur á ólíkum tengslum verkanna við staðreyndir. Gunnþórunn virðist því
ofætla ábyrgð lesendans. Hún ræðir t.d. um þá tilfinningu hins blekkta
lesanda að hann sé samsekur höfundinum og segir:
Við erum samsek Bruno Dösseker því við trúðum honum. Í endur-
skoðuninni sem þessi blekking fæðir af sér mætti ætla að öll orðræða
um helfararbókmenntir, vitnisburðinn – hvort sem það er í fræði-
skrifum prófessora eða á sófanum hjá Opruh – kalli á blekkinguna;
segðu mér að þetta sé satt, að þetta hafi komið fyrir þig, og svo grát-
um við saman. En kannski ber einnig að taka þessum niðurstöðum
með fyrirvara.28
Og hún heldur því fram að „viðtökur svona verka, bæði í fræðasamfélag-
inu og á bókamarkaðinum, [geri í raun] blekkinguna að einhverju leyti
óhjákvæmilega“, slíkar blekkingar hljóti að skjóta upp kollinum sé horft til
þess hvernig lesendur nálgast verkin: Þeir séu auðtrúa og vilji gráta með
höfundi.29
26 Bruno Dössekker hafði aflað sér fróðleiks um útrýmingarbúðir nasista og frásögur
gyðinga af dvölinni þar. Hefði hann ekki gert það eru yfirgnæfandi líkur á að sér-
fróðir menn hefðu séð á textanum að um upplogna sögu var að ræða.
27 Sjá einnig Gunnþórunn Guðmundsdóttir, Borderlines: Autobiography and Fiction in
Postmodern Life Writing, Amsterdam og New York: Rodopi, 2003, bls. 54.
28 Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Blekking og minni“, bls. 51, leturbreyting mín.
29 Sama rit, bls. 44. Hér tel ég að orðalagið „óhjákvæmilegar blekkingar“ sé til þess
fallið að draga úr ábyrgð falsarans. Nær hefði verið að tala um að viðtökurnar og
MINNINGAR SEM FÉLAGSLEGUR TILBÚNINGUR