Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 44
44
skjóli nætur. Jafnframt var rík tilhneiging til að draga kerfisbundið úr vægi
upplýsinga sem virtust til þess fallnar að staðfesta misnotkunina. Slíkar
upplýsingar voru sagðar hafa lítinn sem engan sannfæringarmátt fyrir
skjólstæðingana. Aðalatriðið væri að yfirstíga afneitunina, treysta sínum
„innri veruleika“ (e. internal reality) og flækjast ekki í efahyggjunet fjöl-
skyldunnar.53 Öfugt við kennismiðina, töldu ráðgjafarnir á hinn bóginn
að mannshugurinn væri búinn einstökum hæfileika til að endurheimta
fortíðina eins og hún var. Þeir lýsa því oft hvernig skjólstæðingum þeirra
tókst skyndilega að rifja upp misnotkun í æsku í miklum smáatriðum, nán-
ast eins og spiluð væri vídeóupptaka af atburðunum. Þessir ráðgjafar trúðu
því margir hverjir að sérhvert áfall eða tráma væri skráð og varðveitt af
ótrúlegri nákvæmni í huga viðkomandi einstaklings.54 Þeir töldu líka að
líkaminn héldi skrá yfir æskuáföllin. Í meðferðinni lýstu skjólstæðingar
þeirra því hvernig þeir sáu nákvæmar myndir af misnotkuninni, og hvernig
líkamar þeirra brugðust við líkt og þeir væru aftur að upplifa sama atburð-
inn; þeir fundu til á nákvæmlega þeim stöðum þar sem líkaminn átti að
hafa verið beittur harðræði í æsku o.s.frv.
Trúin á að hugurinn búi yfir óskeikulum búnaði til að koma okkur
í tengsl við veruleikann (eins og hann var) var svo sterk að sumir þess-
ara ráðgjafa hikuðu ekki við að nota eiturlyf, jafnvel ofskynjunarlyf, til
að framkalla minningar um bæld tráma skjólstæðinganna. Saga Gizellu
er athyglisverð í þessu samhengi.55 Hún er ein af fimmtán leiðarsögum
Bass og Davis, og að ýmsu leyti ein sú ótrúverðugasta. Engu að síður
nefni ég hana hér vegna þess að hún er leiðarsaga Bass og Davis og hún
sýnir trú þeirra á ofurmátt hugans til að varðveita nákvæma mynd af áföll-
um æskunnar og til að endursýna óbrenglaðar minningamyndir áratugum
síðar. Þessi saga sýnir líka í ýktri mynd hvað kann að hafa farið úrskeiðis
í mörgum af hinum sögunum.56 Gizellu þessari tókst með hjálp ráðgjafa
síns, Frank Lanou, að endurheimta minningar um grófa misnotkun sem
hún átti að hafa orðið fyrir af hendi föður síns þriggja ára gömul. Gizella
lýsir upprifjuninni svo: „„Frank, þetta hljómar fáránlega en mér líður eins
og það sé verið að nauðga mér. Það er tilfinningin í líkama mínum.“ Og
53 Sjá Renee Fredrickson, Repressed Memories, bls. 158−174, einkum bls. 162−163.
54 Sjá Richard Ofshe og Ethan Watters, Making Monsters, bls. 36–44.
55 Ellen Bass og Laura Davis, The Courage to Heal, bls. 446–457.
56 Sumar sögurnar eru trúverðugri en margar þeirra eru líka mun ótrúverðugri en
saga Gizellu. Á það ekki síst við um sögur af satanískri misnotkun og misnotkun í
fyrra lífi.
RóbeRt H. HaRaLdsson