Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 47
47
þeirra og í öðrum tilvikum var rifjuð upp misnotkun úr fyrra lífi.66 Margar
endurheimtar minningar um misnotkun voru líka ótrúverðugar, ekki síst
þegar eiturlyf voru notuð til að liðka fyrir upprifjuninni líkt og í tilviki
Gizellu.
Í öðru lagi virðist margt benda til þess að þessar minningar hafi ekki
bara verið rangar, líkt og misminni getur verið, heldur helber tilbúningur.
Flestir gagnrýnendur hreyfingarinnar um bældar minningar leitast við að
sýna fram á að bældu „minningarnar“ lýsi ekki því sem gerst hafi í fortíð-
inni heldur hafi þær orðið til í sjálfri meðferðinni.67 Ráðgjafarnir hafi sjálf-
ir í mörgum tilvikum lætt þessum minningum að skjólstæðingum sínum.
Ljóst er að þeir höfðu sjálfir bjargfasta trú á að skjólstæðingar þeirra hefðu
orðið fyrir misnotkun í æsku. Sú skýringartilgáta virðist iðulega hafa verið
tekin fram yfir aðrar og oft sennilegri tilgátur.
Í þriðja lagi virðast þessar minningar ekki aðeins hafa verið búnar til
í meðferðinni. Þær virðast hafa verið félagslegur tilbúningur, ekki ólíkur
þeim sem framangreindir kennismiðir lýsa. Búinn var til frásagnarrammi
sem skjólstæðingar fylltu síðan inn í. Sá frásagnarrammi var styrktur af
félagslegum hreyfingum og ríkjandi hugmyndafræði sem í þessu tilviki var
af ætt femínisma. Þegar The Courage to Heal, Repressed Memories og slíkar
bækur eru lesnar, er næsta auðvelt að bera kennsl á sniðmátin sem notuð
voru til að búa til sögurnar. Orðaforðinn í sögunum er svipaður og sögu-
þráðurinn líka. Skjólstæðingarnir læra að túlka fjölbreytilegustu skapgerð-
areinkenni og tilfallandi líðan sína sem sjúkdómseinkenni. Búnir eru til
almennir og afar opnir listar yfir slík einkenni, sem virðist mega heimfæra
á allar manneskjur. Má þar nefna einkenni á borð við depurð, löngun til að
breyta nafni sínu, óánægju með eigin líkama, erfiðleika við að mynda sam-
bönd og fullkomnunaráráttu.68 Skjólstæðingarnir læra síðan að skoða þessi
einkenni sem vísbendingar um hugsanlega misnotkun. Þeir læra líka að
tala um eigin bresti sem viðbrögð við misnotkuninni. Stelsýki, óhóflegri
áfengisneyslu, lauslæti o.s.frv. er iðulega lýst sem tilraun til að deyfa sárs-
aukann. Oft er þetta gert áður en minningar hafa verið endurheimtar.
Stundum virðist hafa verið auðvelt að fá skjólstæðinga til að trúa því að
66 Sjá Richard Ofshe og Ethan Watters, Making Monsters, bls. 163–165.
67 Sjá t.d. Richard Ofshe og Ethan Watters, Making Monsters, og Elizabeth Loftus og
Katherine Ketcham, The Myth of Repressed Memory.
68 Sjá Renee Fredrickson, Repressed Memories, bls. 48–51. Sjá einnig Richard Ofshe
og Ethan Watters, Making Monsters, bls. 65–66, og Elizabeth Loftus og Katherine
Ketcham, The Myth of Repressed Memory, bls. 22.
MINNINGAR SEM FÉLAGSLEGUR TILBÚNINGUR