Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 49
49
Bass og Davis kenni konum t.d. að tengja nánast allt í fari sínu við meinta
misnotkun í æsku, og einnig makaval og framhjáhald, leggjast þær alfarið
gegn því að tengja samkynhneigð við slíka misnotkun. Samkynhneigð sé
val einstaklingsins.73 Annað dæmi um hugsanleg áhrif þeirrar hugmynda-
fræði má sjá í sögu Evie Malcolm sem er, líkt og saga Gizellu, ein af leið-
arsögum Bass og Davis. Þegar Evie var tuttugu og tveggja ára gömul tókst
henni með virkri aðstoð ráðgjafa síns að „rifja upp“ að hún hefði verið
misnotuð um sex ára skeið í neðanjarðarlestum New York-borgar á leið
sinni í og úr skóla fyrir hæfileikaríkar stúlkur. Misnotkunin hafi átt sér stað
nánast á hverjum degi. Hún heldur því líka fram að sennilega hafi aldrei
verið um sama geranda að ræða. Því má ætla að hún hafi verið misnotuð af
hundruðum karlmanna á þessu sex ára tímabili. Hún staðhæfir á hinn bóg-
inn að enginn þeirra hafi verið svartur eða af spænskum ættum, og að eng-
inn þeirra hafi verið drykkjumaður eða útigangsmaður. Allt hafi þetta verið
virðulegir hvítir karlmenn úr millistétt.74 Hlýtur það að teljast til ólíkinda
í stórborg á borð við New York þar sem kynþáttunum ægir saman.
Ég hef haft „minningar“ og „upprifjun“ í gæsalöppum hér, og það ekki
bara vegna efasemda um að minningarnar séu réttar, heldur líka vegna
þeirra óvenjulegu aðferða sem notaðar voru í hreyfingunni í kringum bældar
minningar til að „rifja upp“ fortíðina. Í stað upprifjunar var notast við það
sem nefnt hefur verið minnisvinna (e. memory work).75 Frá sjónarhóli þeirra
sem trúðu boðskapnum fólst slík minnisvinna einkum í því að undirbúa
jarðveginn svo bældar minningar gætu flætt fram. Undirbúningsvinnan
fólst m.a. í því að skilja eðli bælingar, þekkja óljós einkenni misnotkunar
og fjölþætt eðli minninga, læra að para slík einkenni saman við hugsanlega
atburði í æsku, yfirstíga afneitunina, bægja frá sér lamandi efasemdum,
og nota óbeinar upprifjunaraðferðir svo sem dáleiðslu, ósjálfráða skrift,
draumráðningar, slökun og líkamsnudd. Í sumum tilvikum nægði þetta
ekki og þá þurftu skjólstæðingarnir einfaldlega að gera ráð fyrir að mis-
notkunin hefði átt sér stað og lifa í samræmi við þá trú (Renee Fredrickson
leggur til eitt ár sem lágmark í því sambandi76) þar til hún yrði að raun-
veruleika. Í verstu tilvikum þurftu skjólstæðingarnir einfaldlega að ákveða
að misnotkunin hefði átt sér stað.77 Frá sjónarhóli þeirra sem ekki trúa
73 Sama rit, bls. 268–269.
74 Sama rit, bls. 383.
75 Renee Fredrickson, Repressed Memories, bls. 87–102.
76 Sama rit, bls. 173.
77 Sami staður.
MINNINGAR SEM FÉLAGSLEGUR TILBÚNINGUR