Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 56
56
Málið vakti mikinn óhug í Frakklandi og leiddi til harðrar gagnrýni á
stjórnmálamenn, heilbrigðiskerfið, dómskerfið og ýmis einkafyrirtæki.
Óskammfeilni þeirra sem stóðu að blóðgjöfunum var alger. Því var haldið
fram að hið spillta franska blóð væri „hreint“ eða, eins og Cixous orðar
það í formála að leikritinu, „[…] blátt í gegn og ófært um að ljúga, blóð
sem varð að halda innan sinnar kvíar og mátti ekki blandast öðru blóði“.4
Bak við pukrið, leyndina og svikin sá Cixous glytta í annars konar sögulega
glæpi: gyðingahatur, nýlendustefnu og þjóðarmorð. Hún telur að komið
hafi verið fram við blæðara eins og annars flokks þjóðarbrot eða „útilok-
aða stétt“, en atburðarás þessa máls minnir á það sem Zygmunt Bauman
nefndi „losunariðnað mannlegs úrgangs“ (e. human waste disposal industry)
í samtímanum, þar sem ákveðnir samfélagshópar eru kerfisbundið útilok-
aðir og í raun þurrkaðir út vegna þess að þeir eru taldir einskis virði.5
Þótt blóðhneykslið sé helsta skírskotun Svikinnar borgar snýst leik-
ritið í raun um stjórnmál minninga almennt. Það var skrifað þegar annars
konar blóðbað átti sér stað í Evrópu: borgarastyrjöldin í Bosníu á árunum
1992–1993, þar sem þjóðernishreinsanir og kerfisbundnar nauðganir tættu
samfélagið í sundur. Leikritið var sett á svið í pólitíska tilraunaleikhúsinu
Le Théâtre du Soleil í París árið 1994. Eins og fleiri epísk leikverk sem
Cixous hefur samið fyrir Sólarleikhús Ariane Mnouchkine6 fjallar Svikin
borg um baráttuna fyrir réttlæti og tengsl stjórnmála og siðferðis. Áherslan
er á misbeitingu ríkisvaldsins, andóf almennings og einstaklingsbundna
og sameiginlega sekt. Cixous telur að það sé siðferðileg og söguleg skylda
að krefjast þess að þeir sem beri ábyrgð á misgjörðum gangist við þeim.
Það er í samræmi við meginmarkmið Sólarleikhússins að þagga ekki niður
óþægilegar minningar heldur takast á við þær. Cixous lýsir því svo: „Okkur
dreymir um að segja frá á þann hátt að frásögnin hreyfi við veruleikanum.
tilbúið og því óhæft til notkunar. Blæðarar smituðust af HIV-veirunni í gegnum
blóðskipti á óhituðu, óprófuðu og óskimuðu blóði sem franski blóðbankinn (Centre
National de Transfusion Sanguine, CNTS) útvegaði í samráði við heilbrigðisráðu-
neytið í landinu. Aðrir blæðarar sem þegar voru HIV-smitaðir þáðu einnig blóð
úr sömu birgðum með sömu skelfilegu afleiðingunum.
4 Hélène Cixous, „Nos mauvais sangs“, formáli að La Ville parjure ou le Réveil des
Érinyes, bls. 6.
5 Zygmunt Bauman, „Living (Occasionally Dying) Together in a Full World“,
Topographies of Globalization: Politics, Culture, Language, ritstj. Irma Erlingsdóttir,
Valur Ingimundarson og Kristín Loftsdóttir, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004, bls.
33–45, hér bls. 34–35.
6 Leikstjórinn Ariane Mnouchkine hefur stjórnað Sólarleikhúsinu frá upphafi eða í
hartnær 43 ár.
IRMA ERLINGSDÓTTIR