Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 58
58
Ákall um að muna
Leikrit Cixous er rammað inn í tungumál sögunnar, minninga og goð-
sagna og því er ætlað að beina kastljósinu að því sem hún nefnir „dýpstu
myndhverfingu samtímans“ eða „brýnasta samfélagsvandamálið“.10 Það
hvetur til almennrar ábyrgðar sem felur einnig í sér ábyrgð hvers ein-
staklings.11 Í leit sinni að hlekknum milli fortíðar og nútíðar virðist Cixous
nálgast gleymskuna sem „afmáð spor“ eða sem óaðgreinanlegan hluta
minnisins. Minnið og gleymskan eru því margtengd og ill(sundur)leys-
anleg. Gleymskan skilgreinir óskynjaðar, óstaðfestar minningar og losun
þeirra úr undirvitundinni. Því þarf ekki að skilja gleymskuna sem óum-
flýjanlega eyðileggingu, eins og Paul Ricoeur benti á, heldur ótæmandi
minningabrunn sem þarf sífellt að endurnýja.12 Slík endurlífgun í formi
endurminningar er í augum Cixous andstæða deyfðar og sinnuleysis.
Eftirfarandi orð móðurinnar í Sviknu borginni bergmála þessa siðferðislegu
afstöðu: „Til þess að geta gleymt verður að muna“ og „ég óttast að bregð-
ast hinum dauðu sem eiga aðeins mig að“.13 Þetta er svipuð hugsun og hjá
Derrida sem taldi að engin siðfræði, engin stjórnmál, hvort sem þau væru
„byltingarkennd eða ekki“, stæðu undir nafni nema þau væru reist á virð-
ingu fyrir öðrum, „fyrir þeim sem eru ekki lengur og þeim sem eru ekki
enn, á lífi hér og nú, hvort sem þeir eru þegar látnir eða enn ófæddir“.14
Með vísun í skrif Martins Heidegger hélt Derrida því fram að réttlæti (fr.
dikê) væri alltaf úr lagi (e. out of joint; fr. hors de ses gonds).15 Réttlætið gæti
10 Með orðum Cixous, „The most pregnant metaphor of today“. Bernadette Fort,
„Theater, History, Ethics: An Interview with Hélène Cixous on The Perjured
City, or the Awakening of the Furies“, bls. 425–456, hér bls. 429–430. Í öðru við-
tali notar Ariane Mnouchkine einnig hugtakið „myndhverfing“ (fr. métaphore) til
að lýsa leikritinu: „Já, blóðhneykslið er stórbrotinn glæpur, það er myndhverfing
glæps þess tíma sem við lifum.“ Úr greininni „Le Sang contaminé: quand le théâtre
reprend la tragédie“, Panorama du médecin, 1. júní, 1994, nr. 4026. Bæði Cixous og
Mnouchkine kynntu leikritið sem „samtímaharmleik“ (fr. tragédie contemporaine).
11 Hélène Cixous „Enter the Theatre“, bls. 28.
12 Paul Ricoeur, La Mémoire, l’Histoire, l’Oubli, París: Le Seuil, 2000, bls. 374 og
574.
13 Hélène Cixous, La Ville parjure ou le Réveil des Érinyes, bls. 177 og 179. Hér eftir
verður vitnað til leikritsins með blaðsíðutali í meginmáli.
14 Jacques Derrida, Spectres de Marx: L’état de la dette, le travail du deuil et la nouvelle
internationale, París: Galilée, 2003, bls. 15.
15 Sjá umfjöllun Martins Heidegger um hugtakið „dikê“ í „Der Spruch des Anaxi-
mander“, Holzwege, Frankfurt am Main: Klostermann, 1972, bls. 296–343.
IRMA ERLINGSDÓTTIR