Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 62
62
eins og í Suður-Afríku í kjölfar aðskilnaðarstefnunnar og mannorðsbætur,
hreinsanir eða miskabætur, eins og voru notaðar í Austur-Evrópu eftir fall
kommúnismans.
Í leikritinu vísar Cixous leynt og ljóst í helförina, glæpi Vichy-
stjórnarinnar og aðra atburði tengda stríðsrekstri. Tilgangurinn er að
afhjúpa afneitun gerenda á ábyrgð sinni. Það sem sem hvatti Mnouchkine
og Cixous til að velja blóðhneykslið sem nokkurs konar endurvarp á eldri
og víðtækari sögu, var ekki eingöngu að stjórnmála- og réttarkerfum hafði
ekki tekist að leysa úr málefnum þolenda; það hafði ekki síður áhrif á
þær að þessi kerfi voru sjálf ekki saklaus heldur áttu beina aðild að sam-
særinu. Eins og blóðhneykslið snerist Bosníustríðið um blóð, morð og
útilokun. Afskiptaleysi hins svonefnda „alþjóðasamfélags“ varð til þess að
stríðsglæpamenn nutu svo mikillar friðhelgi að „griðasvæði Sameinuðu
þjóðanna“ í Bosníu varð þeim skálkaskjól og gaf þeim tilefni til að fremja
þjóðarmorð í Srebrenica. Út frá þessu er hægt að lesa Sviknu borgina sem
fordæmingu á hjásetu og deyfð hvarvetna. Með orðum kórsins í leikritinu:
Samviska Evrópu særðist alvarlega
fyrir fimmtíu árum. Það vita allir.
Síðan þá hefur samviskan gjörsamlega horfið okkur.
Síðan þá ljúga allir, svíkja allir,
ljúga að sjálfum sér, eru sviknir fram og aftur og jafnmikið.
Allt hefur orðið svikunum að bráð. (130)
Cixous lýsir andrúmslofti kæruleysis og spillingar á hæstu stöðum og held-
ur því fram að vestrænt siðferði og þau lög sem ætlað er að styðja við það
séu ekki fær um að höndla réttlæti. Í umræðum um Sviknu borgina kemst
hún þannig að orði: „Lagalegt réttlæti er ekki óskaréttlætið heldur löglegt
óréttlæti“27 og í innganginum að þýðingu sinni á Hollvættum Æskílosar,
skrifar hún: „Réttarkerfið hefur það hlutverk að gera óréttlætið þolanlegt
[…] Því er ekki ætlað að vera réttlátt. Réttarkerfið snýst um árangursríka
stjórnsýslu Óréttlætis.“28 Í leikritinu er því lýst hvernig þessi óréttláta
skipan hlutanna hefur þróast sögulega allt frá því að fúríurnar voru jarð-
aðar í Hollvættunum.
27 Bernedette Fort, „Theater, History, Ethics: An Interview with Hélène Cixous
on The Perjured City, or the Awakening of the Furies“, New Literary History,
28:3/1997, bls. 425–456, hér bls. 442.
28 Hélène Cixous, „Le coup“ (inngangur), Les Euménides, þýð: Hélène Cixous, París:
Le Théâtre du Soleil, 1994, bls. 8.
IRMA ERLINGSDÓTTIR