Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 63
63
Cixous notar goðsögnina um dóm Aþenu í Óresteiu sem upphafspunkt,
en í leikritinu sleppur Órestes við sakfellingu fyrir að hafa banað móður
sinni, Klítemnestru, sem hafði drepið föður hans.29 Umdeild ákvörðun
Aþenu byggði á þeirri feðraveldishugmynd að samfélagsstaða karla væri
æðri en kvenna, jafnvel þótt Aþena hafi sjálf álitið að verknaðurinn væri
ekki siðferðilega réttlætanlegur. Þannig vildi hún koma þeim skilaboðum
áfram að lögin mættu ekki aðeins snúast um hefnd, að hinn ákærði gæti
verið fundinn saklaus fyrir rétti og að miskunn ætti alltaf að ganga fyrir.
Hlutverk fúríanna var að hefna föður- og móðurmorða. Þær renna á blóð-
slóðina og blóðþefinn af Klítemnestru og þær hryllir við dómnum, en eftir
að Aþena hefur náð sínu fram verða þær að sætta sig við hann. Þar með er
komið á réttarkerfi sem byggir á dómum og sem ætlað er að binda enda á
vítahring hefndar og blóðbaðs í nafni skynsemi og framþróunar. „Án rétt-
arkerfisins, myndum við verja lífi okkar í úthrópanir,“ skrifar Cixous í inn-
gangi sínum að Hollvættunum: „Dulið markmið Aþenu er að við kyngjum
heift okkar til þess að friður ríki.“30
Svikin borg hefst með örvæntingarópi aðalpersónunnar, móðurinnar,
sem hollvættirnar heyra og mæta þess vegna til leiks. Hróp hennar minnir
á tregasöngva kvenna í Grikklandi hinu forna, en í þeim koma fram sterk
tengsl milli sorgarinnar og kvenna sem „eru alteknar þjáningu, almennri
þjáningu í þeim skilningi að hún er altæk, tekur til allra sorga“, eins og
Nicole Loraux orðar það.31 Loraux hefur í skrifum sínum bent á að gríska
borgríkið hafi verið mjög upptekið af því að verjast hamsleysi kvenna:
„Tár þeirra og tilfinningar voru talin ógna pólitísku jafnvægi og öryggi
borgaranna.“32 Að hafa vakandi auga með sorginni þýddi því að hafa hemil
á konum: „Þess vegna var minningunni hafnað ef hún leiddi eitthvað
misjafnt í ljós: Borgin þarf að viðhalda sér án brotalama, borgarar mega
ekki slíta sér út við grát.“33 Loraux vísar til grísku harmleikjanna þar sem
mæður syrgja það stöðugt að vera mæður og sérstaklega mæður sona. Þótt
grískir karlmenn teldu kvenleikann ná fullkomnun með móðurhlutverk-
inu eru það á þversagnakenndan hátt mæður og sér í lagi mæður sona sem
29 Um tengsl La Ville parjure ou le Réveil des Érinyes við Óresteiu sjá Bernadette Fort,
„Spectres d’Éschyle: La Ville parjure d’Hélène Cixous“, Hélène Cixous, croisées d’une
œuvre, ritstj. Mireille Calle-Gruber, París: Galilée, 2000, bls. 443–446.
30 Hélène Cixous, „Le coup“, bls. 9.
31 Nicole Loraux, Les mères en deuil, París: Seuil, 1990, bls. 12.
32 Sama rit, bls. 21.
33 Sami staður.
AF SVIðI FYRIRGEFNINGAR