Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 68
68
t.d. Shoshana Felman, eru hins vegar á þeirri skoðun að gildi réttarhald-
anna hafi einmitt falist í rýminu sem fórnarlömbin fengu til að tjá sig
munnlega eða vera viðstödd sem vitni.40
Móðirin og merking fyrirgefningarinnar
Með því að halda sýndarréttarhöld Sviknu borgarinnar í kirkjugarði, þar
sem móðirin er í fyrirrúmi, má halda því fram að þolendur hafi öðlast það
sem Felman í umfjöllun sinni um Eichmann-réttarhöldin kallar „merk-
ingarvald“.41 Þar hafi saga þolandans ekki aðeins verið endurtekin, heldur
sköpuð, sögulega, í fyrsta skipti. Því var ekki einungis um endurtekningu á
flutningi ákveðinnar sögu að ræða heldur einstæðan frásagnarviðburð sem
var í sjálfu sér sögulega og lagalega án fordæma. Ef meginvirkni vitnis-
burðar felst ekki í því að veita upplýsingar um staðreyndir heldur miðla
þeim tilfinningalega, þá verður honum ekki komið á framfæri ef aðeins
er stuðst við hefðbundnar leiðir talaðs máls. Jean-François Lyotard hefur
kallað þetta málfarsmisræmi (fr. disjonction idiomatique) og notar hugtakið
„mismunarbreytu“ (fr. différend) yfir fyrirbærið. Mismunarbreyta á sér stað
þegar reglurammi átaka fer einungis fram á málsniði annars deiluaðilans og
nær því ekki utan um það ranglæti sem hinn aðilinn hefur orðið fyrir.42
Réttarhöldin í kirkjugarðinum í Sviknu borginni eru sviðsett á forsend-
um fórnarlambanna fremur en þeirra seku. Eins og Derrida hefur haldið
fram er nauðsynlegt að greina í sundur hugmyndina um „vitnisburð“ ann-
ars vegar og hugmyndina um „sönnun“ hins vegar. Vitnisburðurinn „ætti
ekki alfarið að byggja á því að sanna, að staðfesta vitneskju, að tryggja
ákveðna fræðilega vissu. […] Trúargjörð verður einnig að koma hér til.“43
Vitnisburður móðurinnar markast af minningum og reynslu hennar af
atburðunum og er því annað og meira en þær staðreyndir sem atburðirnir
lýsa. Susan Ayres gengur enn lengra þegar hún heldur því fram að Cixous
40 Sbr. Shoshana Felman, „Theaters of Justice: Arendt in Jerusalem, the Eichmann
Trial, and the Redefinition of Legal Meaning in the Wake of the Holocaust“.
41 Sama rit.
42 Jean-François Lyotard, Le différend, París: Éditions de Minuit, 1983, bls. 24–25
og bls. 29–30. Sjá einnig: Marianne Hirsch og Leo Spitzer, „The Witness in the
Archive“, bls. 394.
43 „... tout témoignage responsable engage une expérience poétique.“ Jacques
Derrida, „Poétique et politique du témoignage“, Derrida, París: Éditions de l’Herne,
2004, bls. 529; sjá einnig: Marianne Hirsch og Leo Spitzer, „The Witness in the
Archive“, bls. 394.
IRMA ERLINGSDÓTTIR