Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 82
82
vangi hefur hann beitt sér gegn ákvörðun Alþingis um að hefja aðildarvið-
ræður við Evrópusambandið. Hannes Pétursson hefur hins vegar fagnað
þeirri ákvörðun og gagnrýnt það sem hann kallar „blágrænu þverpólitík-
ina“ gegn aðildarumsókninni.8
Framlag Hannesar til umræðunnar er þó einnig sjálfsagt að meta með
hliðsjón af því að hann er handgenginn skáldskap Jónasar Hallgrímssonar.9
Staða Tryggva Gíslasonar markast með hliðstæðum hætti af því að hann er
„formaður stjórnar menningarfélagsins Hrauns í Öxnadals“.10 Félagið var
stofnað árið 2003 í þeim tilgangi að kaupa fæðingarstað Jónasar og koma
þar á fót Jónasarsetri, auk þess að vinna að ýmsum menningarmálum.
Þær áætlanir hafa gengið eftir. Á Hrauni er nú sýning helguð Jónasi og
störfum hans og íbúð sem rithöfundar, listamenn og fræðimenn geta leigt
til skemmri eða lengri tíma (fyrsti gesturinn var Hannes Pétursson).11
Árið 2007, þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Jónasar, friðlýsti Jónína
Bjartmarz umhverfisráðherra 2.286 hektara úr landi Hrauns og í fram-
haldi kynntu menningarfélagið, umhverfisráðuneytið og Hörgárbyggð
svæðið sem friðaðan fólkvang.12 Sama ár stóð menningarfélagið að útgáfu
ævisögu Jónasar eftir Böðvar Guðmundsson og dreifði henni til allra nem-
enda í tíunda bekk grunnskóla.13 Það er væntanlega í krafti þessa starfs að
Tryggvi telur sig bæran til að tala „fyrir hönd Jónasar“ og krefjast lögbanns
yfir aðgerðum Seðlabankans. Grein hans vekur ekki aðeins upp spurningar
um það félagslega hlutverk sem ódauðlegir einstaklingar á borð við Jónas
gegna í samtímanum heldur einnig um það hverjir hafi umboð til að móta
hugmyndir okkar um fortíðina og með hvaða hætti þeir láti til sín taka.
Hér á eftir er ætlunin að skoða þessi og fleiri skyld álitamál frá sjón-
arhorni minnisfræða. Titill greinarinnar vísar til þess greinarmunar sem
8 Sjá Jón Kalman Stefánsson, „Bullustrokkarnir munu ekki þagna fyrr en í fulla hnef-
ana“, Fréttatíminn 29.–31. október 2010, bls. 28–29, hér bls. 28.
9 Sjá m.a. Hannes Pétursson, Kvæðafylgsni. Um skáldskap eftir Jónas Hallgrímsson,
Reykjavík: Iðunn, 1979.
10 Tryggvi Gíslason, „Ekki er öll vitleysan eins“, bls. 17.
11 Sjá m.a. „Hraun í Öxnadal“, FÍN. Félag íslenskra náttúrufræðinga, vefslóð http://
www.bhm.is/fin/orlofshus/hraun-i-oxnadal/, skoðað 14. október 2012 og „Hraun
í Öxnadal“, Menning – saga – þjónusta á Hörgársvæðinu, vefslóð http://www.bhm.
is/fin/orlofshus/hraun-i-oxnadal/, skoðað 14. október 2012.
12 Sjá m.a. „Arnarnesstrýtur og hluti Hrauns friðlýst“, Morgunblaðið 11. maí 2007, bls.
30; Tryggvi Gíslason, „Líffræðilegur fjölbreytileiki“, Morgunblaðið 28. apríl 2009,
bls. 26.
13 Sjá m.a. „Gefa öllum 10. bekkingum nýja bók um Jónas“, Morgunblaðið 23. maí
2007, bls. 17.
Jón KaRL HeLGason