Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 83
83
tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera gerir á tvenns konar ódauðleika;
litla ódauðleikanum, sem felst í minningu í huga þeirra sem þekkja eða
þekktu viðkomandi einstakling persónulega, og stóra ódauðleikanum, sem
felst í minningu í huga þeirra sem ekki þekktu hann.14 Hugmynd mín er að
sýna hvernig þeir sem eignast hlutdeild í stóra ódauðleikanum verða hluti
af menningarlegu minni tiltekins samfélags. Sérstaklega verður hugað að
a) þeim leiðum sem færar eru til að halda minningu tiltekins einstaklings á
lofti, b) þeim hugmyndum eða gildum sem viðkomandi er gerður að full-
trúa fyrir og c) þeim aðilum eða öflum sem hafa tækifæri til að rækta eða
bæla niður slíkar minningar. Þessi þrískipting tekur mið af greiningu belg-
íska bókmenntafræðingsins Andrés Lefevere á endurritun bókmenntatexta
en samkvæmt honum mótast sérhver ný endurritun af fagurfræði, hug-
myndafræði og þeim bakjörlum (e. patrons) sem hafa afskipti af bókmennta-
vettvanginum á hverjum tíma.15 Allir þessir þættir hafa komið við sögu á
liðnum árum við mótun minningarinnar um Jónas Hallgrímsson.
Minningarmörk
Umræða Kundera um litla og stóra ódauðleikann kallast á við skilgreining-
ar fræðimannanna Jans og Aleidu Assmann á miðlanlegu minni (e. commu-
nicative memory) og menningarlegu minni (e. cultural memory). Fyrra hug-
takið er rakið til franska félagsfræðingsins Maurice Halbwachs sem hélt því
fram um miðja síðustu öld að tilteknir hópar fólks – til að mynda fjölskyld-
ur, nágrannar og samstarfsmenn – ættu vissar sameiginlegar minningar
(e. collective memories) um fortíðina og mótuðu þær jafnframt í samskiptum
sín á milli. Hver einstaklingur fær slíkar minningar í arf þegar hann vex úr
grasi eða samlagast viðkomandi hópi og þær verða þá smám saman hluti af
sjálfsmynd hans.16 Fólk deilir slíkum minningum í samræðum sín á milli
14 Milan Kundera, Ódauðleikinn, bls. 49–50. Sjá ennfremur Jón Karl Helgason,
Ferðalok: Skýrsla handa akademíu, Reykjavík: Bjartur, 2003, bls. 77–79.
15 André Lefevere, „Why Waste Our Time on Rewrites? The Trouble with In-
terpretation and the Role of Rewriting in an Alternative Paradigm“, í The Manip-
ulation of Literature: Studies in Literary Translation, ritstj. Theo Hermans, New York:
St. Martin‘s Press, 1985, bls. 215–243, hér bls. 226–227.
16 Sjá Maurice Halbwachs, On Collective Memory, þýð. Lewis A. Coser, Chicago:
University of Chicago Press, 1992. Sjá ennfremur umfjöllun um sameiginlegt
minni í Sigurður Gylfi Magnússon, Sjálfssögur. Minni, minningar, saga, Sýnis-
bók íslenskrar alþýðumenningar 11, ritstj. Soffía Auður Birgisdóttir, Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 2005, bls. 179–193.
STÓRI ÓDAUðLEIKINN