Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 88
88
fjölskylduna, en vísa um leið til „æðri“ gilda, svo sem frelsis og hamingju.
Í vestrænum samfélögum samtímans er slíkum gildum haldið á lofti af
mörgum ólíkum aðilum og með fjölbreyttum hætti, til að mynda í auglýs-
ingum, dægurlagatextum og leiknu sjónvarpsefni, en þau setja líka mark
sitt á vettvang stjórnmála og sýnilegra trúarbragða. Hér má taka dæmi um
það hvernig réttindabarátta homma og lesbía hefur ekki bara haft marg-
háttuð áhrif á löggjöf hér á landi á liðnum árum heldur knúið kirkjuna til að
endurskoða afstöðu sína til hjónabanda einstaklinga af sama kyni.32
Í bókinni Religion und kulturelles Gedächtnis (Trú og menningarlegt
minni), sem út kom árið 2000, tekur Jan Assmann undir hugmyndir
Luckmanns en bendir um leið á að hægt sé að líta á menningarlegt minni
sem ígildi stofnunar ósýnilegra trúarbragða, „það er að segja heild þeirra
forma sem eru nýtileg við miðlun og varðveislu á skiljanlegum táknrænum
merkingarheimi“.33 Máli sínu til stuðnings tekur Assmann annað dæmi af
Forn-Egyptum þar sem hugtakið maat var notað um æskilegt samræmi í
heiminum og heimfært upp á mannlegt samfélag sem hugmynd um rétt-
læti. En hugtakið var einnig samofið hugmyndum um tilgang pólitísks
valds þar sem faraóinn bar ábyrgð á að það ríkti á jörðinni. „Ríkið sem
stofnun er þó ekki birtingarmynd maat. Ekki er unnt að stofnanagera eða
hlutgera það, þ.e. að binda það í kerfi,“ skrifar Assmann.34 Hann vitnar í
því sambandi til forns vísdómskvæðis sem kveður á um að maat þurfi að
endurspeglast jöfnum höndum í lögum ríkisins og trúarlífi einstakling-
anna; að öðrum kosti sé hætt við að samfélagið liðist í sundur. Með hlið-
stæðum hætti er meginhlutverk menningarlegs minnis að tryggja varð-
veislu tiltekinnar heimsmyndar til lengri tíma og skapa festu í innbyrðis
samskiptum og félagslegri sjálfsmynd viðkomandi hóps.
Í þessu sambandi gerir Assmann greinarmun á minningarmörkum eftir
því hvort þau séu staðlandi (e. normative) eða mótandi (e. formative). Í fyrra
tilvikinu er hlutverk þeirra að hjálpa okkur við að taka ákvarðanir, skera
úr um deilur og draga ályktanir (segja okkur hvað við eigum að gera) en
í því síðara að hjálpa okkur við að skilgreina og móta sjálfsmynd okkar
(segja okkur hver við erum).35 Þessi skipting er að því marki gagnleg að
32 Sjá m.a. Sólveig Anna Bóasdóttir, „Kynhneigð í krísu. Kirkjan, hinsegin fólk og
mannréttindi“, Ritið 12:2/2012, bls. 55–76.
33 Jan Assmann, Religion and Cultural Memory, bls. 37.
34 Sama heimild, bls. 33. Assmann segir að maat sé hliðstætt forn-gríska hugtakinu
kosmos og skrifum kínverskra spekinga um taó.
35 Sama heimild, bls. 38.
Jón KaRL HeLGason