Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 91
91
embætti. Bellah vekur líka athygli á því að minningin um bandarísku borg-
arastyrjöldina hafi þróast þannig að tilteknar hugmyndir um dauða, fórn
og endurfæðingu skipa ríkan sess í þessum borgaralegu trúarbrögðum, og
að Abraham Lincoln hafi, vegna „píslarvættis“ síns, orðið holdgervingur
þeirra hugmynda. Styrjaldarinnar var lengi minnst árlega með sérstökum
minningardegi síðasta mánudag maímánaðar, en hann varð síðar almenn-
ur minningardagur allra þeirra sem látið hafa lífið fyrir fósturjörðina.
Umræða Bellahs um Lincoln minnir á að menningarlegir þjóðardýr-
lingar eiga hliðstæður á vettvangi stjórnmálanna, pólitíska þjóðardýrlinga,
sem nánar er vikið að hér á eftir. Líkt og trúarlegir dýrlingar kirkjunnar
hafa einstaklingar úr báðum þessum hópum það hlutverk að gera tilteknar
dyggðir (t.d. vissar hugmyndir um hetjuskap, hugrekki, fórnfýsi, siðgæði og
ættjarðarást) skiljanlegri og nærtækari í huga borgaranna og skapa fordæmi
um ræktun þeirra. Táknrænt gildi þeirra getur skarast og jafnframt verið
breytilegt frá einum tíma til annars. Hlutverk Jónasar Hallgrímssonar sem
þjóðardýrlings er til að mynda ýmist tengt þátttöku hans í sjálfstæðisbar-
áttunni eða fagurfræðilegum viðhorfum. Þau minningarmörk sem honum
tengjast geta, af þessum sökum, haft breytilega skírskotun. Afhjúpun á
líkneski hans við Lækjargötu árið 1907 fléttaðist til dæmis inn í deilur
Íslendinga um sambandsmálið og hvítbláa fánann. Líkneskið af honum
var öðru fremur þjóðlegt frelsistákn á þeim tíma.41 Árið 1996, þegar Björn
Bjarnason menntamálaráðherra gerði 16. nóvember að Degi íslenskrar
tungu, var Jónasar fremur tákngervingur móðurmálsins og menningar-
innar. Opinbert markmið með þessum árlega viðburði, sem skólakerfi og
menningarstofnanir taka virkan þátt í, er að beina „athygli þjóðarinnar að
stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu“.42
Endurteknar tilraunir íslenskra þingmanna til að „fela menntamálaráð-
herra að hlutast til um það við Háskóla Íslands að stofnað verði prófessors-
embætti kennt við Jónas Hallgrímsson skáld“ virðast hafa miðað að því að
sameina þessi tvö tákngildi. Þegar þingmaðurinn Árni Johnsen mælti fyrir
ályktun um efnið í byrjun árs 2008 sagði hann meðal annars:
41 Sbr. Jón Karl Helgason, „Dularfulla fánastangamálið. Átökin í kringum aldarminn-
ingu Jónasar Hallgrímssonar“, óbirtur fyrirlestur fluttur á Hugvísindaþingi í Há-
skóla Íslands 26. mars 2011.
42 „Dagur íslenskrar tungu“, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, vefslóð: http://
www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit/, skoðað 4. janúar 2013.
STÓRI ÓDAUðLEIKINN