Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 96
96
geta haft áhrif á vettvangi sýnilegra trúarbragða. En þau áhrif geta eins
gengið í hina áttina. Forvitnileg dæmi um það eru til umfjöllunar í grein
franska sagnfræðingsins Alberts Soboul um pólitíska þjóðardýrlinga (e.
patriot saints) frönsku byltingarinnar. Eftir að hafa rifjað upp skrif ýmissa
sagnfræðinga um augljós trúarleg áhrif í táknkerfi byltingarinnar rekur
Soboul sögu tiltekinna „píslarvotta“ hennar. Þeirra á meðal var Perrine
Dugué, nítján ára stúlka sem myrt var af þremur konungssinnum í mars-
mánuði 1796 þar sem hún var á leið til að hitta bræður sína en þeir börð-
ust með herjum byltingarmanna. Stúlkan var grafin á nálægum akri og
brátt komust á kreik sögur um kraftaverk í tengslum við staðinn; þangað
kom fólk að leita sér lækninga, auk þess sem menn töldu sig hafa séð anda
stúlkunnar svífa til himins á vængjum í frönsku fánalitunum. Ári síðar var
kapella reist á staðnum en eftir að kirkjan náði sér aftur á strik í Frakklandi
fjaraði átrúnaðurinn á Perrine smám saman út, enda fengu kraftaverkin
ekki viðurkenningu kaþólskra yfirvalda.50
Soboul tekur líka dæmi af því hvernig byltingarhópar í París ræktuðu
minningu fallinna leiðtoga sinna. Meðal þeirra var einn helsti hugmynda-
fræðingur Jakobína, Jean-Paul Marat, sem var myrtur í baði 13. júlí 1793.
Strax eftir dauða hans hófust deilur milli ólíkra hópa um umráðaréttinn
yfir líkinu en þeir sem hlutu hnossið ákváðu að reisa eins konar altari
Marat til dýrðar þar sem krukka með hjarta hans hékk uppi. Einnig var
gefinn út bæklingur þar sem píslarvætti hans var líkt við krossfestingu
Krists. Á næstu mánuðum voru haldnar fjölmargar minningarathafnir um
þennan píslarvott byltingarinnar, brjóstmyndir og líkneski voru afhjúpuð,
það voru jafnvel settir á svið helgileikir sem báru keim af kaþólsku ritúali
en sóttu líka í forn-klassískar hefðir og nýttu sérstök tákn byltingarinnar,
þeirra á meðal gyðju frelsisins. En ekki voru allir jafnánægðir með þessa
þróun; kirkjunnar menn töldu að hér væri um fordæmanlega skurðgoða-
dýrkun að ræða á meðan guðleysingjar í hópi byltingarmanna sögðu að
barátta þeirra fyrir að skilja að kirkju og ríkisvald kæmi fyrir lítið ef þetta
væri niðurstaðan. Á fundi Jakobína í nóvembermánuði 1793 fordæmdi til
dæmis ritstjóri hins róttæka dagblaðs Le Père Duchesne þessa þróun harð-
lega og sagði: „Parísarbúar hafa sett Marat í stað Krists.“51
50 Albert Soboul, „Religious feeling and popular cults during the French Revolution:
‘patriot saints’ and martyrs for liberty“, í Saints and their Cults. Studies in Religious
Sociology, Folklore and History, ritstj. Stephen Wilson, Cambridge: Cambridge
University Press, 1983, bls. 217–232, hér bls. 220.
51 Sama heimild, bls. 228.
Jón KaRL HeLGason