Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 98
98
lögð frístundabyggð. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka er
gert ráð fyrir að umrætt land fari í söluferli eins og aðrar eignir
sem bankinn eignast með þessum hætti. Menningarfélagið leggur
einnig til að Íslandsbanki afhendi Hörgársveit eignarhlut bankans í
félaginu, en sveitarstjórn Hörgársveitar hefur enn ekki tekið afstöðu
til málsins.54
Þær viðræður sem þarna áttu sér stað virðast að nokkru leyti hafa snú-
ist um eignarhlut ólíkra hluthafa í minningunni um Jónas Hallgrímsson
og þau fjárhagslegu tækifæri sem í henni felast. Áðurnefndar hugmyndir
alþingismanna um stofnun prófessorsembættis Jónasar snúast aftur á móti
um það að gera eina opinbera stofnun að virkum bakjarli þess menningar-
lega minnis sem er annarri opinberri stofnun þóknanleg. Slíkt embætti
er ekki aðeins dæmi um minningarmark sem varðveitir nafn ódauðlegs
einstaklings heldur er hér reynt að fara nýja leið við endurholdgun hans á
launaskrá íslenska ríkisins.
Niðurlag
Í þessari grein hafa hugmyndir Assmann-hjónanna um menningarlegt
minni verið nýttar til að varpa ljósi á það félagslega hlutverk sem ódauð-
legir einstaklingar leika í stærri og smærri samfélögum. Því hefur verið
haldið fram að sumir þeirra gegni líku hlutverki innan þjóðríkisins og
píslarvottar og verndardýrlingar gera innan kirkjunnar, þ.e. að vera hold-
gervingar tiltekinna einstaklingsbundinna eða félagslegra dyggða. Þessum
samanburði er ætlað að dýpka skilning okkar á þeim hliðum menningar-
legs minnis sem hægt er að lýsa með hugtökunum minningarmörk, borg-
araleg trúarbrögð og bakjarlar. Í seinni tíð hafa einstök þjóðríki, með virkri
þátttöku þjóðþings, ráðuneyta, seðlabanka, safna, skóla og fleiri stofnana,
tekið minningu tiltekinna einstaklinga upp á sína arma. Slík opinber viður-
kenning, sem getur meðal annars falist í útgáfu peningaseðils eða árlegum
minningardegi, virðist hliðstæð formlegri viðurkenningu páfastóls á helgi
tiltekins dýrlings. Forsenda helgifestu slíkra þjóðardýrlinga er þó jafnan
sú að „alþýðlegri“ bakjarlar hafi ræktað minningu viðkomandi í lengri eða
skemmri tíma en ljóst er að verkaskipting milli þeirra og hins opinbera er
sjaldnast afdráttarlaus eða endanleg.
Upptaktur greinarinnar voru þær deilur sem fyrirhuguð útgáfa
54 „Borga skuld með skáldajörð“, RÚV 20. september 2012, vefslóð: http://www.ruv.
is/frett/borga-skuld-med-skaldajord, skoðað 3. október 2012.
Jón KaRL HeLGason