Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 102
102
við kynþáttafordóma í Bandaríkjunum undir lok 19. aldar.5 Í stuttu máli
eru vísurnar talnarím þar sem tíu litlir drengir týna tölunni, einn í hverju
erindi, þar til í síðasta erindinu að þeir verða aftur tíu. Myndskreytingar
sem oft fylgdu vísunum voru skrípamyndir af svörtu fólki sem þá voru
vinsælar í Bandaríkjunum, þar sem fígúrurnar einkenndust m.a. af lágu
enni, til að tákna litla greind og skyldleika við apa,6 stórum rauðum vörum
og útstæðum augum.
Hér verður því haldið fram að þrátt fyrir að bókin feli í sér sterka kyn-
þáttafordóma, sem einnig má finna í öðrum íslenskum textum frá sama
tíma, sé of mikil einföldun að líta eingöngu á sýn þeirra sem vörðu bókina
árið 2007 sem tjáningu slíkra fordóma. Greining þessi á umræðum sem
spunnust í kringum endurútgáfuna bendir til þess að þær snúist einnig að
stórum hluta um ákveðið minni sem er samofið þjóðernislegri sjálfsmynd á
Íslandi og á þann hátt hugmyndum um sögu og fortíð Íslands.7 Slíkt minni
verður hluti af því hvernig einstaklingar muna eftir eigin sögu og sjálfum
sér sem hluta af íslensku þjóðinni. Einnig bendir umfjöllun mín á að þessar
umræður um Negrastrákana séu ekki einsdæmi heldur megi sjá svipaðar
deilur á öðrum Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu. Umræðan er
þannig staðsett innan gagnrýninnar endurskoðunar sem nýlega hefur átt
sér stað meðal fræðimanna á því hvernig tengslum Norðurlandanna við
nýlenduverkefni 19. aldar er minnst.8 Notaðar eru umræður um félagslegt
minni (e. social memory) til að öðlast dýpri skilning á merkingu kynþátta-
5 Í umfjöllun minni nota ég hugtökin kynþáttafordómar og kynþáttahyggja jafnhliða
sem þýðingar á enska hugtakinu racism. Enska hugtakið racism vísar hvort tveggja
til ákveðins ‚isma‘ eða stefnu og fordóma. Sumir þeirra fræðimanna sem skrifa á
ensku (t.d. Kwame Anthony Appiah, In my Father’s House: Africa in the Philosophy
of Culture, New York: Oxford University Press, 1992) telja að með því að nota
hugtakið racialism nái þeir betur utan um þá trú að hægt sé að skipta fjölbreytileika
mannkyns í aðskilda kynþætti. Flestir sem skrifa á ensku nota hins vegar hugtakið
racism sem vísun í bæði það þekkingarkerfi sem náði almennri útbreiðslu á 19. öld
og þá fordóma sem það fól í sér. Því má undirstrika að hugtakið racism vísar til kerfis
hugsana og heimsmyndar sem til varð á 19. öld þar sem sú trú er undirliggjandi
að hægt sé að skipta mannkyni í aðgreinda kynþætti, en ekki einfaldlega fordóma
eins hóps í garðs annars. Slíkur skilningur á hugtakinu veitir dýpri innsýn í það af
hverju kynþáttafordómar viðgangast í samtímanum.
6 Stanley Lemons, „Black Stereotypes as Reflected in Popular Culture, 1880–1920“,
American Quarterly 1/1977, bls. 102–116, hér bls. 104.
7 Umræðan hér byggir á gögnum sem safnað var í rannsóknarverkefnum sem styrkt
voru af Þróunarsjóði innflytjendamála og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
8 Sjá til dæmis Complying with Colonialism, ritstj. Suvi Keskinen, Sara Irni, Diana
Mulinari og Salla Tuori, Burlington: Ashgate, 2009.
KRistÍn LoFtsdóttiR