Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 105
105
ann sé mikilvægt að draga fram að hann feli ekki eingöngu í sér huglægar
minningar eða minnistengdar sagnir heldur einnig efnislega þætti, sem er
mjög í takt við þá sýn að félagslegt minni færist milli kynslóða eða tímabila
í gegnum ákveðin rými. Fyrir nákvæmari greiningu á tengslum fortíðar
og nútíðar leggur Stoler til hugtakið ruins, sem þýða má á íslensku sem
,leifar‘ eða ,minjar‘, sem er gagnlegra en arfleifð (e. legacy) sem oft er notað
þegar vísað er til kynþáttahyggju í samtíma og fortíð. Áhersla á minjar
nýlendutímans dregur fram hvernig nýlendutíminn mótar bæði minningar
í samtímanum og átti þátt í að mynda ákveðnar formgerðir, sem ýta undir
ólíka valdastöðu einstaklinga út frá flokkunum sem fengu forræði á heims-
valda- og nýlendutímanum.21
Hér er byggt á rannsókn sem fólst í því að safnað var bloggfærslum
og fjölmiðlaefni ásamt því að tekin voru viðtöl við ólíka hópa fólks í rýni-
hópum og við einstaklinga um sýn þeirra á bókina Negrastrákarnir og á
umræðurnar um hana.22 Fyrst verður fjallað stuttlega um mikilvægi þess að
staðsetja minni sem hluta af rannsóknum á kynþáttafordómum í samtím-
anum og gagnrýninni umræðu um fjölmenningu. Bókin Negrastrákarnir
er síðan staðsett í sögulegu og alþjóðlegu samhengi og farið yfir nokkur
meginatriði varðandi það hvernig einstaklingar útskýrðu afstöðu sína til
bókarinnar í viðtölum og í bloggfærslum.
Kynþáttafordómar og minni
Kynþáttafordómar hafa lengi verið viðfangsefni fræðimanna sem hafa
reynt að kortleggja upphaf og eðli þeirra, ásamt skilningi á breyttum birt-
ingarmyndum. Eftir seinni heimsstyrjöld var kynþáttahyggja harkalega
21 Laura Ann Stoler, „Imperial Debris: Reflections on Ruin and Ruination“, Cultural
Anthropology 2/2008, bls. 191–219, hér bls. 193.
22 Tekin voru viðtöl við 27 Íslendinga án innflytjendabakgrunns, 20 einstaklinga af
afrískum uppruna og sjö einstaklinga með evrópskan eða bandarískan bakgrunn.
Flest viðtöl voru tekin í rýnihópum, fyrir utan viðtöl við fólk af afrískum uppruna.
Þeir einstaklingar voru afmarkaðir út frá eftirfarandi breytum: Einstaklingar með
evrópskan eða bandarískan bakgrunn, fólk sem tengist bókabúðum eða bókaútgáfu,
leikskólakennarar og grunnskólakennarar. Bloggfærslum og fjölmiðlaefni var safn-
að á tveggja vikna tímabili í október og nóvember 2007 þegar umræðan hafði
nýlega verið í hámarki og var alls safnað 101 færslu, sem voru skrifaðar á milli 22.
október og 9. nóvember 2007. Við 75 þessara bloggfærslna höfðu verið skrifaðar
athugasemdir og voru þær einnig skoðaðar. Í umræðu minni vísa ég fyrst og fremst
í þann hluta gagnanna sem snúa að bloggfærslum og viðtölum við Íslendinga án
innflytjendabakgrunns, þrátt fyrir að önnur gögn séu einnig höfð til hliðsjónar.
ENDURÚTGÁFA NEGRASTRÁKANNA