Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 108
108
vegar um heim á meðan tengsl Noregs við nýlenduverkefnið voru í Afríku,
til dæmis í gegnum viðskiptahagsmuni en ekki bein yfirráð Noregs yfir
öðru ríki, enda landið ekki fullvalda fyrr en á 20. öld.33 Þjóðir sem áttu
ekki nýlendur gátu einnig tekið fullan þátt í kynþáttafordómum í gegnum
ímyndir og athafnir.34 Aðalatriðið hér er þó ekki að greina þessa sögu
heldur hvernig hennar er minnst í samtímanum. Umræður um fjölmenn-
ingarlegt samfélag bera með sér að munað er eftir nýlendutímanum á
ákveðinn hátt og að sama skapi má líta á kynþáttahyggju sem félagslegt
minni sem hefur færst á milli kynslóða.
Hugmyndin um ,norrænu undantekninguna‘ (e. Nordic exceptionalism)
hefur haft mikil áhrif á sjálfsmynd Norðurlandabúa og ímynd þeirra út á
við, en hún felur í sér að Norðurlöndin séu ólík öðrum löndum Evrópu,
friðsælli og undanskilin sögu nýlendutímans.35 Þessi hugmynd endur-
speglast til dæmis í því að Norðurlandaþjóðir eru taldar æskilegri en aðrar
þjóðir í friðargæslu þar sem þær eru taldar ótengdar nýlenduverkefninu.36
Norðurlöndin hafa einnig verið virk í ýmiss konar baráttu gegn kynþátta-
fordómum og heimsvaldastefnu án þess að setja spurningarmerki við eigin
fordóma og þátttöku í nýlenduverkefnum Evrópu.37 Hugmyndin um nor-
rænu undantekninguna má útskýra sem félagslegt minni sem veitir áhrifa-
mikinn útskýringarramma fyrir tengsl Norðurlandanna við umheiminn og
gerir reynslu þeirra skiljanlega og rökrétta.
Norðurlöndin tóku þó á margvíslegan hátt þátt í nýlenduverk-
efni Evrópuþjóða sem og mótun kynþáttahyggju. Diana Mulinari, Suvi
Keskinen, Sara Irni og Salla Tuori benda á að nota megi hugtakið colonial
complicity eða samsekt til þess að draga athygli að þessari margvíslegu þátt-
töku Norðurlandanna.38 Fræðimenn á Norðurlöndum voru einnig sumir
í lykilhlutverki í mótun hugmynda um kynþætti. Sænski náttúrufræðing-
urinn Carl von Linné lagði til dæmis drög að flokkun í kynþætti í seinni
33 Sjá umræðu um Noreg í Kolonitid: Nordmenn på eventyr og big business i Afrika og
Stillehavet, ritstj. Kristin Alsaker Kjerland og Knut Mikjel Rio, Ósló: Scandinavian
Academic Press, 2009.
34 Kristín Loftsdóttir og Lars Jensen, „Introduction“, Whiteness and Postcolonialism
in the Nordic Region: Exceptionalism, Migrant Others and National Identities, ritstj.
Kristín Loftsdóttir og Lars Jensen, Burlington: Ashgate, 2012.
35 Sama heimild.
36 Christopher S. Browning, „Branding Nordicity: Models, Identity and the Decline
of Exceptionalism“, Cooperation and Conflict 1/2007, bls. 28–51, hér bls. 28.
37 Complying with Colonialism, bls. 2.
38 Sami staður.
KRistÍn LoFtsdóttiR