Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 117
117
máli hvað sé sagt. Þannig athugasemdir líta framhjá kynþáttafordómum
sem áhrifamiklum þætti í sögunni sem mótaði líf og dauða einstaklinga
sem og viðvarandi fordómum í garð þessa hóps. Kynþáttafordómar verða
þannig einfaldlega eitthvað huglægt sem fólk leitar að eða velur að láta
hafa áhrif á sig. Dóra, einn viðmælenda minna, segir til dæmis að svar við
spurningu um hvort bókin feli í sér kynþáttafordóma fari eftir því hvernig
litið sé á það og bætir við að það sé nú líklega ekkert svona ,hættulegt‘
og virðist þá eiga við bókina. Þannig er spurningin um hvort bókin feli
í sér kynþáttafordóma gerð afstæð, háð tilfinningu einstaklinga. Ekki er
hægt að sjá að einstaklingarnir velti fyrir sér hvort viðhorf þeirra séu undir
áhrifum frá því að þeir myndu sjálfir að öllum líkindum vera skilgreindir
sem hvítir einstaklingar af sínu samfélagi. Í sumum tilfellum er þó litið svo
á að fjölmiðlar séu áhrifaþáttur, eða eins og einn viðmælandi orðaði það:
„Fjölmiðlar bjuggu til kynþáttafordóma með því að tala um þetta með
þessum hætti.“
Seinasta þrástefið sem ég beini sjónum að er áhersla á að gagnrýni
á endurútgáfuna endurspegli pólitíska rétthugsun sem hefur gengið of
langt, eða eins og einn bloggari orðar það: „Fólk má varla opna á sér
munninn nema að vera ,rasistar‘ eða eins og í jafnréttisumræðunni þar
sem karlmenn eru allir karlrembur ef þeir hafa skoðun um hversu mikið
rugl jafnréttisbaráttan er orðin.“73 Svipuð viðhorf endurspeglast hjá Agli
Helgasyni á heimasíðu hans þar sem var að finna nokkuð ítarlega umræðu
um ritskoðun og pólitíska rétthugsun.74 Í athugasemd við færslu þar sem
bókin er gagnrýnd segir maður nokkur: „Þessi bók er klassísk og afhverju
að breyta bókum af því að viðhorfin breytast? Í dag er alveg bannað að
gera grín að þjóðum eða þjóðfélagshópum nema hvítum karlmönnum.
Femínistar sturlast ef gert er grín að konum, negrar brjálast yfir því einu
að vera kallaðir negrar osfv. Ef bókin héti 10 litlar stelpur yrði allt vitlaust,
en ef hún héti 10 litlir (hvítir) strákar þá væri það í fínu lagi.“75 Slíkar stað-
hæfingar voru í sumum tilfellum tengdar við femínisma eins og dæmin hér
að ofan endurspegla, sem er athyglisvert því, eins og fjöldi rannsókna hefur
73 Einar, „Er verið að ganga of langt?“, 26. október 2007, sótt 8. nóvember 2007 af
http://einarlee.blog.is/blog/einarlee/entry/348292/.
74 Egill Helgason, „Stuð fyrir bókabrennur“.
75 Óskar, athugasemd við bloggfærsluna „10 litlir negrastrákar“, 23. október 2007, sótt
13. nóvember 2007 af http://fridaeyland.blog.is/blog/fridaeyland/entry/345575/.
ENDURÚTGÁFA NEGRASTRÁKANNA