Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 118
118
sýnt fram á, skarast hugmyndir um kyn og kynþætti í gegnum söguna.76
Hér má greina áhugaverðan viðsnúning: Umræðan snýr að fordómum og
réttindum einstaklinga en fórnarlömbin eru ekki þeir sem staðalmyndirnar
snúa að heldur þeir sem verja endurútgáfu bókarinnar. Þetta má til dæmis
sjá í því þegar einn segir í athugasemd sinni að umræðan minni á „þýska-
land nasismans“ eða „Kommúnisma sovétríkjana“.77 Í slíkri umræðu er
þannig fjallað um fordóma en það eru þeir sem verja endurútgáfuna sem
telja sig þá sem verða fyrir fordómum og meginfórnarlömb umræðunnar.
Við sjáum vissulega einnig dæmi um slíkt frá Bandaríkjunum þar sem talað
hefur verið um ,white backlash‘ þar sem sumir ,hvítir‘ einstaklingar telja
sig vera helstu fórnarlömbin þegar rætt er um kynþáttafordóma.78
Þeir sem gagnrýna endurútgáfuna
Almennt lögðu þeir sem gagnrýndu endurútgáfuna áherslu á að bókin væri
úr takti við Ísland samtímans. Eins og einn leikskólakennari sagði í viðtali:
„Þegar hún var fyrst gefin út [...] þá var náttúrulega ekki mikið verið að
velta svona fyrir sér [...] af því að þá voru kannski bara örfáar manneskjur
á Íslandi kannski þeldökkar eða ef einhverjar.“ Annar benti á að þrátt fyrir
að bókin væri barn síns tíma, þegar fólk „vissi ekki betur“, mætti engu að
síður sjá í texta og myndum „gríðarlega mikla fordóma“. Margir tengdu
gagnrýni sína á bókina einnig sérstaklega við aukinn fjölda barna af erlend-
um uppruna vegna þess að sum þeirra gátu verið dökk á hörund. Slíkt má
sjá í eftirfarandi ummælum á bloggsíðu: „Veit fólk ekki að hér á landi eru
fleiri tugir blandaðra barna sem annað foreldri þeirra er íslenskt og eru því
þau börn eins Íslensk samkvæmt lögum og það sjálft. Finnst fólki eðlileg
að svört börn læri í leikskóla sínum að kalla sjálfan sig „negra“?“79 Einnig
studdu þessir einstaklingar mál sitt með því að þeir þekktu persónulega
einstaklinga sem voru skilgreindir sem „svartir“ eða áttu börn sem voru
76 Kristín Loftsdóttir og Brigitte Hipfl, „Introduction“, Teaching „Race“ with a
Gendered Edge, ritstj. Brigette Hipfl og Kristín Loftsdóttir, Utrecht/Budapest:
ATGENDER/Central European University Press, 2012.
77 Krossgata, athugasemd við færsluna „10 litlir negrastrákar“, 24. október 2007, sótt
13. nóvember 2007 af http://fridaeyland.blog.is/blog/fridaeyland/entry/345575/.
78 Julia Lesage, Abby L. Ferber, Debbie Storrs og Donna Wong, Making a Difference:
University Students of Colour Speak Out, Lanham, MD: Rowman og Littlefield
Publishers, 2002.
79 Halla Rut, „10 Litlir negra strákar“, 26. október 2007, sótt 7. nóvember 2007 af
http://hallarut.blog.is/blog/hallarut/entry/348395.
KRistÍn LoFtsdóttiR