Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 123
123
virðist liggja til grundvallar sýn þeirra sem verja bókina og er hluti af því
félagslega minni sem túlkar merkingu bókarinnar innan íslensks veruleika.
Þrátt fyrir að umræðan endurómi þannig á margvíslegan hátt alþjóðleg
stef annars staðar frá sem tengja má við margþætta endursköpun kynþátta-
hyggju í félagslegu minni samtímans, er að mínu mati of einfalt að afgreiða
sýn þeirra sem verja bókina eingöngu sem endurspeglun á kynþáttahyggju.
Þessar hugmyndir skarast við sýn einstaklinga á íslenskt þjóðerni og sjálfs-
myndir sem hluti af sögu þjóðar á mun dýpri hátt.94
Umræðan vekur jafnframt upp spurningar í samtímanum um hvað við
viljum gera við þessar efnislegu leifar frá tímum þegar gróf mannréttinda-
brot í garð ákveðinna hópa þóttu mörgum sjálfsögð og eðlileg, frá tímum
þegar slík brot voru ekki aðgerðir eins einstaklings gegn öðrum, held-
ur hluti af heimsmynd einstaklinga, þáttur í stefnu stjórnvalda og hluti
af hversdagslegu umhverfi bæði þeirra sem fordómarnir beindust að og
umhverfi þeirra sem urðu ekki fyrir slíkum fordómum. Hvernig getum við
samræmt þennan veruleika við bækur eða aðra efnislega hluti sem endur-
spegla þessa fordóma en hafa jafnframt tilfinningalegt gildi sem þáttur
í sögu þjóðarinnar og tengjast minningum um fortíð hennar? Þegar við
bregðumst þannig við að við neitum að horfast í augu við kynþáttafordóma
í bókum eins og Negrastrákunum vegna þess að þeir hafi verið ásættanlegur
hluti af íslensku samfélagi þegar bókin kom fyrst út erum við samhliða –
óafvitandi eða ekki – að segja að þessir fordómar séu einnig eðlilegir og
ásættanlegir í samfélagi samtímans.
Ú T D R Á T T U R
Endurútgáfa Negrastrákanna
Söguleg sérstaða Íslands, þjóðernishyggja og kynþáttafordómar
Barnabókin Negrastrákarnir var gefin út á íslensku árið 1922 með myndskreyt-
ingum listamannsins Muggs. Texti bókarinnar samanstóð af þýddum vísum sem
gefnar hafa verið út víða um heim frá seinni hluta 19. aldar. Við endurútgáfu bók-
arinnar á Íslandi árið 2007 upphófust harðvítugar deilur þar sem sumir gagnrýndu
kynþáttafordóma í bókinni og töldu að hana hefði ekki átt að endurútgefa á meðan
94 Kristín Loftsdóttir, „Skörun kynþáttafordóma og þjóðernishyggju: Fólk af afrískum
uppruna á Íslandi“, Þjóðarspegillinn 2011: Rannsóknir í Félagsvísindum, ritstj. Ása
Guðný Ásgeirsdóttir, Helga Björnsdóttir og Helga Ólafsdóttir, Háskóli Íslands:
Félagsvísindastofnun, 2011, bls. 372–380.
ENDURÚTGÁFA NEGRASTRÁKANNA