Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 129
129
vísur Þormóðs hefðu verið spássíuathugasemdir við söguna og ekki sóttar
í stærri kvæði.19 Jón Jóhannesson hélt hins vegar fram þeirri skoðun að
ekki væri örugg vissa fyrir því að vísurnar væru síðari tíma viðbót enda tók
hann kvæði Þormóðs til vitnis um að sagan væri yngri en þau.20 En Stefán
Karlsson leit svo á að vísur Þormóðs hefðu ekki verið upphaflega í Arons
sögu rétt eins og Finnur og þar við situr.21 Benda má á því til sönnunar að
sumar vísnanna eru ekki á réttum stöðum í sögunni og eins hitt að þær eru
settar þar inn með orðum eins og: „Svá segir Þormóðr prestr Ólafsson [II:
247]“ og „Þessa vísu orti Þormóðr prestr [II: 252]“.22 Hins vegar segir við
vísu Brands: „Brandr kvað þá vísu þessa [II: 252]“ svo að hún er hluti frá-
sagnarinnar en ekki aðeins henni til stuðnings eins og vísur Þormóðs.23 En
af því textafræðingar eru svo ósammála um uppruna vísnanna færa flestar
þeirra okkur aðeins heim sanninn um að áhugi var á ævisögu Arons en ekki
um hvernig sá áhugi varðveittist í minni og minningum.
Samband Arons sögu og Íslendinga sögu
Björn M. Ólsen færði rök fyrir því að Arons saga væri óháð Íslendinga sögu
og taldi að sjá mætti af samanburði sagnanna hvernig frásagnir hefðu
geymst í munnmælum.24 Flestir eldri fræðimenn hafa fallist á niðurstöður
Ólsens.25 Jón Jóhannesson dró niðurstöður þeirra saman í formála sínum
að Sturlunguútgáfunni 1946 en bætti svo við:
19 Jón Helgason, „Norges og Islands digtning“, Litteraturhistorie (Nordisk kultur 8),
Kaupmannahöfn: J.H. Schultz, 1943, bls. 141.
20 Jón Jóhannesson, „Um Sturlunga sögu“, bls. l.
21 Stefán Karlsson, „Indledning“, bls. clxvi; sbr. Guðrún Nordal, Tools of Literacy, bls.
368, nmgr. 50.
22 Vitnað er til Sturlunguútgáfunnar, Sturlunga saga, útg. Jón Jóhannesson o.fl., 2 b.,
Reykjavík: Sturlunguútgáfan, 1946.
23 Sjá Bjarni Einarsson, „Um vísur í íslenskum fornsögum“, Mælt mál og forn fræði:
Safn ritgerða eftir Bjarna Einarsson gefið út á sjötugsafmæli hans 11. apríl 1987 (Stofn-
un Árna Magnússonar á Íslandi, rit 31), ritstj. Sigurgeir Steingrímsson, Reykjavík:
Stofnun Árna Magnússonar, 1987, bls. 182–183, 186–188.
24 Björn M. Ólsen, Um Sturlungu (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta 3),
Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, bls. 254–272; sjá ennfremur Guð-
brandur Vigfússon, „Formáli“, bls. lxvii.
25 Sjá Knut Listøl, Uppruni Íslendinga sagna, þýð. Björn Guðfinnsson, Reykjavík:
Menningarsjóður, 1938, bls. 67–70; ennfremur Robert J. Glendinning, „Arons
saga and Íslendinga saga: A Problem in Parallel Transmission“, Scandinavian Studies
41/1969, bls. 41–51.
aRons saGa