Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 130
130
Annars er rétt að hafa í huga, að sumt af efni Arons sögu getur vel
verið runnið frá Íslendinga sögu, þótt höfundurinn hafi ekki haft
hana í höndum við samninguna og jafnvel aldrei lesið hana. Ef svo
skyldi vera, er minna upp úr Arons sögu að leggja en ella sem heim-
ild um varðveizlu arfsagna.26
Þetta er hins vegar röng ályktun því eins og Stefán Karlsson benti á geta
munnmæli og ritaður texti haft víxlverkandi áhrif innbyrðis, ekki síst í
samfélagi þar sem hvort tveggja er viðhaft.27 Raunar er ekki blöðum að
fletta um það að sá sem setti Arons sögu saman hefur á einhverju stigi þekkt
til efnis Íslendinga sögu, Guðmundar sögu góða, Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar,
Þórðar sögu kakala og Hákonar sögu Hákonarsonar – jafnvel Þorgils sögu
skarða þótt undarlegt sé að hann nýti sér ekki meira þá sögu. Hann gerir
nefnilega ráð fyrir að efni þessara sagna sé kunnugt og áheyrendur setji
sögu hans í samband við þær – hvort heldur sem efnið var þekkt munnlega
eða skriflega. Guðbrandur Vigfússon benti á að vísað væri til sjónar- og
heyrnarvotta í sögunni og taldi það rök fyrir því að sagan væri gömul og
hefði verið skrifuð eftir þeirra minni.28 Menn eru ekki lengur jafntrúaðir
á slíkar tilvitnanir í fornsögum.29 Hins vegar benda þær til textatengsla og
að það sé unnt að tala um tvö lög í textanum – það sem skrifað stendur og
munnlega geymd sem er gert ráð fyrir að sé til staðar.30 Sú þekking sem
höfundur gengur út frá í munnlegri geymd og skrifuðum textum er miklu
meiri en það sem hann hefur sett saman eins og Carol J. Clover hefur bent
á í sambandi við munnmæli og Brian Stock um ritað mál.31
26 Jón Jóhannesson, „Um Sturlunga sögu“, bls. l.
27 Stefán Karlsson, „Guðmundar sögur biskups“, bls. 158; sjá ennfremur Jacques Le
Goff, History and Memory, bls. 75.
28 Sjá Björn M. Ólsen, Um Sturlungu, bls. 265.
29 Sjá Theodore M. Andersson, „The Textual Evidence for an Oral Family Saga“,
Arkiv för nordisk filologi 81/1966, bls. 1–23.
30 Sbr. Michael Riffaterre, „The Mind’s Eye: Memory and Textuality“, The New
Medievalism, ritstj. Marina S. Brownlee o.fl., Baltimore: Johns Hopkins University
Press, 1991, bls. 43–44.
31 Carol J. Clover, „The Long Prose Form“, Arkiv för nordisk filologi 101/1986, bls.
10–39; Brian Stock, „Medieval Literacy, Linguistic Theory, and Social Organiza-
tion“, New Literary History 16/1984, bls. 13–29; sjá ennfremur Gísli Sigurðsson,
„Njáls saga og hefðin sem áheyrendur þekktu“, Þjóðarspegill 2010, ritstj. Gunnar
Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir, Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla
Íslands, 2010, bls. 60–67.
ÚLFaR bRaGason