Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 131
131
John Porter heldur hins vegar enn fram þeirri skoðun að sagan sé ekki
óháð Íslendinga sögu.32 Hann bendir á að í svokölluðum formála Sturlungu
sé vikið að því að Sturla hafi haft „sumt eftir bréfum þeim, er þeir rituðu,
er þeim váru samtíða, er sögurnar eru frá [I: 115].“ Álítur Porter að höf-
undur Arons sögu hafi haft úr svipuðu efni að moða. Sömu skoðunar var
Magnús Jónsson hvað varðaði höfund Guðmundar sögu dýra. En Magnús
taldi að orðið bréf væri hér notað í víðri merkingu „um alls konar skráðar
heimildir, stuttar sögur og skýrslur, sem teknar hafa verið og skrifaðar eftir
mönnum, ekki síður en „bréf““.33 Magnús gerði sér í hugarlund að til sam-
tíðarsagna hefði verið efnað á svipaðan hátt og menn safna til munnlegrar
sögu nú.
Munnleg geymd
Lengi var talið að Íslendingasögur byggðust á munnlegri hefð (þ. Freiprosa)
en síðan varð það ofan á með svokölluðum íslenska skóla að til þeirra sagna
hefði verið efnað líkt og nútímahöfundar gera til sögulegra skáldsagna
(þ. Buchprosa).34 Ef til vill má merkja sömu breytingar í hugmyndum fræði-
manna um uppruna samtíðarsagna. Upphaflega hafi menn verið trúaðir á
að þær væru munnlegar frásagnir sem hefðu verið skrifaðar niður.35 En
John Porter hafi hallast að skoðunum íslenska skólans. Nú hafa ekki varð-
veist slík bréf sem Porter gerir ráð fyrir en það þarf ekki að koma í veg fyrir
að þau hafi verið til því að gera má ráð fyrir að einstök blöð hafi varðveist
síður en bækur, ekki síst eftir að Arons saga hafði verið sett saman.36 Hins
vegar má segja að hvort sem hafi verið bréfað til Arons sögu eða ekki þá
hljóti hún á einhverju stigi að reiða sig á munnlegar frásagnir.
32 John Porter, „Some Aspects of Arons saga Hjörleifssonar“, bls. 144–161; sbr.
Hermann Pálsson, „Athugasemd um Arons sögu“, Saga 3/1960–1963, bls. 300.
33 Magnús Jónsson, Guðmundar saga dýra: Nokkrar athuganir um uppruna hennar og
samsetningu (Studia Islandica, 8), Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1940, bls. 45;
sjá ennfremur Stefán Karlsson, „Guðmundar sögur biskups“, bls. 156; Guðrún
Ása Grímsdóttir, „Um sárafar í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar“, Sturlustefna
(Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, rit 32), ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir og
Jónas Kristjánsson, Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1988, bls. 201–202.
34 Sjá Theodore M. Andersson, The Problem of Icelandic Saga Origins: A Historical
Survey, New Haven: Yale University Press, 1964, bls. 65–81.
35 Sjá Knut Liestøl, Uppruni Íslendinga sagna, bls. 48, 62, 67–69, 74, 161, 184, 210.
36 Sbr. M. T. Clanchy, From Memory to Written Record: England 1066–1307, London:
Edward Arnold, 1979, bls. 13–14; sjá ennfremur Jacques Le Goff, History and
Memory, bls. 74; Chris Given-Wilson, Chronicles, bls. 58.
aRons saGa