Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 137
137
ust þar og þá.63 Veraldlegar samtíðarsögur byggjast þess vegna ekki á
raunveruleikanum sjálfum eða eru beinar eftirmyndir af honum, jafnvel
þótt sagnaritararnir hafi ef til vill ímyndað sér það, heldur á frásögnum
um raunveruleikann og viðhorfum til hans. Þessar frásagnir af mönnum og
atburðum, sem þeir hafa átt hlut að, hafa tengst héruðum, fjölskyldum og
ættum. Það er þetta eðli heimildanna frekar en veruleikinn sjálfur sem tak-
markar frá hverju sögurnar segja. Veraldlegar samtíðarsögur eru frásagnir
um deilur og vígaferli af því að þess konar atburðir, sem hentu menn, þóttu
sögulegir.
Bandaríski sagnfræðingurinn Gabrielle M. Spiegel hefur sagt um
franskar miðaldakróníkur að á yfirborðinu virðist þær ruglingslegar, laus-
lega samsettar úr þáttum sem ekki sé sýnilegt orsakasamhengi á milli,
en að baki búi hugmyndin um að hver atburður reki annan rétt eins og
maður fæðist af manni. Þannig hafi ættartölur gert höfundunum kleift að
skipuleggja frásögn sína eins og röð atburða sem hver ættliðurinn á fætur
öðrum í einni ætt eða fleiri olli. Persónuleg einkenni og afrek, nákvæmlega
rakin í hverri ævisögunni eftir aðra, báru vitni um að kjarni sögunnar væru
athafnir bestu manna, samskipti þeirra og það gildismat sem kom fram í
störfum þeirra.64 Sama mætti einnig segja um veraldlegar samtíðarsögur.
Ættrakningarnar eru ekki viðaukar eða óþarfa upptalningar sem hlaupa má
yfir við lestur þeirra. Þær eru þvert á móti nauðsynlegar til að skilja innsta
kjarna sagnanna.65 Það er einmitt mannfræðin sem gerir sögurnar verald-
legar. Þótt kaþólskar trúarskoðanir hafi vafalaust sett mikinn svip á aldar-
farið leggja fæstir sagnaritararnir áherslu á trúarlegar útlistanir atburða.
Hrafns saga Sveinbjarnarsonar og Arons saga eru undantekningar, líklega af
því að þær tengjast sögu Guðmundar góða. Sögurnar segja frá dauðlegum
mönnum og rekja viðburði í lífi þeirra eins og liði í ættartölum. Tími sam-
tíðarsagna er mennskur og tengist við einstaklinga, ættliði og ættir jafnvel
63 Sjá Elizabeth Tonkin, Narrating Our Pasts: The Social Construction of Oral History
(Cambridge Studies in Oral and Literate Culture, 22), Cambridge: Cambridge
University Press, 1992, bls. 97.
64 Gabrielle M. Spiegel, „Genealogy: Form and Function in Medieval Historical Nar-
rative“, History and Theory 22/1983, bls. 51; sjá einnig R. Howard Bloch, Etymologies
and Genealogies, bls. 79–83.
65 Sjá Margaret Clunies Ross, „The Development of Old Norse Textual Worlds:
Genealogical Structure as a Principle of Literary Organisation in Early Iceland“,
JEGP 92/1993, bls. 372–385.
aRons saGa