Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 139
139
og hetjulega framferðis og styðja með því þau trúarlegu og veraldlegu gildi
sem sagan dregur fram.72
Carol J. Clover hefur sagt að munnmæli verði að fornsögu þegar þau
eru felld inn í stærri heild um leið og þau eru skrifuð niður.73 Hins vegar
getur form minni frásagnareininga byggst á hefð. Eins og oft hefur verið
bent á eru í hverri frásögn tvenns konar framsetningarhættir, þ.e. annars
vegar atburðafrásögnin sjálf og hins vegar lýsingar á persónum, hlutum
og umhverfi. Þessir framsetningarhættir koma fyrir í mismunandi hlut-
falli í frásögn en bindast þó rækilega saman.74 Fornsögurnar eru engin
undantekning að þessu leyti þótt þær séu einkum atburðafrásagnir og
dvelji sjaldnast lengi við lýsingar. Bandaríski fræðimaðurinn Richard F.
Allen hefur greint að margs konar frásagnaraðferðir í þeim. Þrjár þeirra
eru notaðar til að lýsa atburðum. Fyrst er að telja annálskennt yfirlit
atburða, í öðru lagi nákvæmari yfirlitsfrásagnir um atburði og í þriðja lagi
frásagnir í beinni ræðu. Aðrar frásagnaraðferðir sem Allen nefnir eru beint
staðreyndatal, upplýsingar um persónur frásagnarinnar og ættrakning-
ar.75 Slíkir frásagnarhlutar eru til skýringar við sjálfa atburðarásina. En á
grundvelli skiptingarinnar milli upplýsinga og atburðarásar í frásögn hefur
tvenns konar frásagnarliðum verið gefinn sérstakur gaumur í rannsókn-
um á fornsögunum, kynningu sögupersóna og sviðsetningu atburða eða
„smámyndum“ eins og Jón Jóhannesson kallaði þær.76 Þessir frásagnarliðir
eru svo hefðbundnir að gera má ráð fyrir að svipað form hafi verið notað í
munnlegri frásögn.
Arons saga hefst á tímasetningu atburða með því að geta um Sverri kon-
ung Sigurðsson og helstu höfðingja á Íslandi, leika og lærða. Síðan eru
foreldrar Arons leiddir til sögunnar og þeim lýst:
and Literature, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004, bls. 38–39; Rolf
Heller, „Aron Hjörleifssohn und Gisli Surssohn“, Arkiv för nordisk filologi 81/1966,
bls. 57–63.
72 Sbr. Richard Slotkin, The Fatal Environment, bls. 19.
73 Carol J. Clover, „The Long Prose Form“, bls. 39.
74 Sjá t.d. Gérard Genette, Figures of Literary Discourse, þýð. Alan Sheridan, New
York: Columbia University Press, 1982, bls. 133–137; ennfremur Seymour Chat-
man, Story and Discourse: Narrative Structure in Fiction and Film, Ithaca: Cornell
University Press, 1978, bls. 96–97, 101–107.
75 Richard F. Allen, Fire and Iron: Critical Approaches to Njáls saga, Pittsburgh: Uni-
versity of Pittsburgh Press, 1971, bls. 30–34.
76 Sjá t.d. Richard F. Allen, Fire and Iron, bls. 65; Carol J. Clover, „Scene in Saga
Composition“, Arkiv för nordisk filologi 89/1974, bls. 57–83; Lars Lönnroth, Njáls
saga, bls. 43–55; Jón Jóhannesson, „Um Sturlungu“, bls. xii–xiii.
aRons saGa