Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 141
141
Snýr hann [Aron] nú heim ok mætir Guðmundi biskupi í kirkju-
garðinum ok klerkasveit hans með honum, ok kveðr Aron biskup,
en hann svarar honum blíðliga, því at hann elskaði Aron meir en
alþýðu manna, sem síðan þykkir nökkur raun hafa á borit. Fór nú
Aron skjótt ok vápnar sik með öruggri brynju ok góðum hjálmi ok
sterkri hlíf. It fjórða vápn var mikit sax – sem stór sverð, ok var þat
it ágætasta vápn. Aron snýr skjótt út.
Er nú biskup enn fyrir honum ok lætr vel yfir þessum tiltekjum,
– „ok vil ek nú, sonr minn, at þú gangir til skriftar við mik.“
„Ekki er nú tóm til þess, herra,“ segir Aron, „því at eigi mun
þykkja of þykkskipat til varnarinnar, ok er jafnan munr undir manns-
liði.“
„Vel er slíkt mælt,“ segir biskup, „en þó skyldir þú sem trúmestr
vera, sonr minn, ok vertu sem bezt við fátæka menn.“ (Sturlunga II:
246)
Hér er þó sleppt niðurlagsorðum „smámyndarinnar“ til að leggja áherslu
á orð biskups.78
Í fornsögunum eru sömu sagnaminnin endurtekin, svipaðar kringum-
stæður, sögusvið og jafnvel orðalag í sviðsetningum sem sagnameistararnir
eiga í forðabúri sínu, minni og minningum. Þessi atriði standa í sambandi
við að atburðarásin fylgir ákveðnum frásagnarmynstrum. Lars Lönnroth
hefur lýst nokkrum þessara „smámynda“ í rannsókn sinni á Njáls sögu.79
Eftirtalin atriði af lista hans koma oft fyrir eða skipta a.m.k. máli fyrir
frásögn veraldlegra samtíðarsagna: 1) söguhetja er kynnt fyrir höfðingja
erlendis og er tekin í hirð hans; 2) sögupersóna segir frá því að sig hafi
dreymt fyrir daglátum; 3) kona eggjar ættingja sinn til hefnda; 4) maður
heimsækir ættingja eða vin til að afla stuðnings; 5) söguhetja hittir óvin
sinn fyrir og drepur hann; 6) sögupersónur komast að sáttum.80 Í Arons
sögu vantar að vísu að konur eggi til hefnda, til þess eru konur sögunnar
of hógværar, en öll hin atriðin koma fyrir. Þekktasta atriðið í Arons sögu er
þegar Aron segir draum sinn um Guðmund biskup áður en menn Sturlu
Sighvatssonar ráðast að honum í Geirþjófsfirði (II: 260–261).
Fóstbræðraminnið sem skiptir miklu máli fyrir Laxdælu og Fóstbræðra
sögu og kemur einnig fyrir í Prestssögu Guðmundar góða er í raun upp-
78 Sjá sama rit, bls. 79.
79 Lars Lönnroth, Njáls saga, bls. 47–48.
80 Úlfar Bragason, Ætt og saga, bls. 76–77.