Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 143
143
fekk hann á læri, en it þriðja á rist, ok var þessi vörn allfræg. Fór þá
svá, at hann dasaðist af mæði ok blóðrás, svá at hann fell, ok var þat
þó síðar en líkligt var. (II: 248)
Síðan bætir sögumaður við til skýringar: „Nú þótt Aron sýndi í vörn þessi
meira mátt en líkindi væri á, þá kenna menn þat meir guðs miskunn ok
bænum Guðmundar biskups en einkum framkvæmð sjálfs hans, ok hitt
annat, at þeir hafa minni ábyrgð hafða fyrir guði, er vörðu Guðmund bisk-
up, en hinir, er at sóttu [II: 248].“ Tekur hann með þessu og öðrum slíkum
innskotum í sögunni ákveðna afstöðu með Aroni og Guðmundi biskupi.
„… eitt it bezta sverð af várum þegnum“
Arons saga er hliðholl Hákoni konungi Hákonarsyni í deilum þeirra Skúla
jarls Bárðarsonar og sögumaður mærir miklar velgjörðir konungs við
Aron: „Þat var mark á velgerningum konungs, þeim [er] hann veitti Aroni,
at hann skipaði honum á sitt skip, þar sem hann var á sjálfr, ok enn annat
lítit mark, at sverð Arons skyldi liggja hjá konungsins sverði, en fá önnur
[II: 271].“ Kallast þannig orð hans á við orð konungs við gröf Arons „at
hér hefir látizt eitt it bezta sverð af várum þegnum [II: 278]“. Sverðið var
eitt helsta valdatákn konungs svo að sögumaður gerir mikið úr áhrifum
Arons við hirðina. Sögumenn samtíðarsagna eru þó yfirleitt ekki ávirkir
frekar en í Íslendingasögunum heldur segja hlutlægt frá. En með þessum
og öðrum skýringum við söguna sver sögumaður sig í ætt þeirra sem segja
biskupasögur og einatt eru hliðhollir söguhetjum sínum.
En það sama gerði sögumaður Hrafns sögu hinnar sérstöku. Hvort það
er til marks um tengsl sagnanna tveggja eða tengsl þeirra við Guðmundar
sögu skal ósagt látið. Sá sem setti Króksfjarðarbókartexta Sturlungu saman
leitaðist hins vegar við að afmá þessi einkenni Hrafns sögu þegar hann felldi
söguna inn í samsteypuna. Hann felldi einnig framan af henni það sem
segir um utanfarir Hrafns og pílagrímsgöngur.82 Raunar segir hann sem
minnst um utanfarir persónanna í þessari miklu sagnasamsteypu heldur
dvelur við frásagnir af innanlandsófriði hér á landi. Þess vegna er líklegt að
hann hefði ekki tekið upp úr Arons sögu miklu meira en það sem Íslendinga
saga kann að segja frá Aroni, jafnvel þótt hann hefði haft söguna við hönd-
ina.
82 Úlfar Bragason, „The Structure and Meaning of Hrafns saga Sveinbjarnarsonar“.
aRons saGa