Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 149
149
hafði sjálfur tekið þátt í landnáminu en eigi að síður var landnámið hluti af
sameiginlegu minni Íslendinga sem hóps.
Á miðöldum voru ýmsir aðrir þættir í sjálfsmynd Íslendinga áhrifameiri
en vitundin um að tilheyra mengi sem kallaðist „Íslendingar“. Þeir til-
heyrðu t.d. einnig hópi kristinna manna sem átti sér líka sameiginlegar
minningar og vitund um sameiginlegan uppruna.11 Hinn kristni heimur
var markaður af hinni upphaflegu ætlun, hann var allur „ofinn af hinni
guðlegu könguló“.12 Ritun veraldarsögu fangaði hinar sameiginlegu minn-
ingar og fortíðarvitund kristinna manna sem hóps. Í þeim skilningi mynd-
uðu íslenskir ritarar og áheyrendur kristinnar veraldarsögu orðræðusam-
félag sem tengdist öðrum orðræðusamfélögum innan hins kristna heims.
Hlutverk þessa orðræðusamfélags var að varðveita og framleiða orðræður
um veraldarsögu og hafa umsjón með dreifingu þeirra.13 Veraldarsagan
hafði þó ýmsa anga sem ekki voru allir af sama toga. Í því máli sem hér
fylgir er ætlunin að greina hugmyndir um sameiginlega fortíð alls mann-
kyns, sem ráða má af tveimur íslenskum handritum frá fyrri hluta 14. aldar.
Þau eru annars vegar Hauksbók, safnrit Hauks Erlendssonar lögmanns (d.
1334), sem hann og nokkrir aðrir skrifarar rituðu á fyrsta áratug 14. aldar.
Hins vegar er handritið AM 226 fol., ritað um miðja 14. öld, sem er eitt
af aðalhandritum Stjórnar en inniheldur einnig Rómverja sögu, Alexanders
sögu og Gyðinga sögu. Þessi tvö handrit eru dæmi um mismunandi hliðar
veraldarsögunnar eins og hún horfði við lærðum Íslendingum á þeim tíma
sem þau eru rituð, um kerfisbindingu vitundarinnar um fortíðina en einn-
ig um kerfisbundna gleymsku, þar sem veraldarsagan var takmörkuð og
mótuð af tiltekinni heimsmynd.
Hin kristna veraldarsaga
Upphaf ritaldar á Íslandi er á fyrri hluta 12. aldar og varð sagnaritun
fljótlega mikilvægur hluti af bókmenntastarfi íslenskra lærdómsmanna.
Í Íslendingabók eftir Ara fróða Þorgilsson (1067–1148) er einkum fjallað
11 Sverrir Jakobsson, „Sjálfsmyndir miðalda og uppruni Íslendinga“, Þjóðerni í þúsund
ár?, ritstj. Jón Yngvi Jóhannsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Sverrir Jakobsson,
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003, bls. 17–37.
12 Michel Foucault, Alsæi, vald og þekking, bls. 228.
13 Um orðræðusamfélög, sjá nánar Michel Foucault, „Skipan orðræðunnar“, þýð.
Gunnar Harðarson, Spor í bókmenntafræði 20. aldar frá Shklovskíj til Foucault,
ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík:
Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991, bls. 191–226, hér bls. 207–208.
Hin HeiLaGa FoRtÍÐ