Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 150
150
um stofnanir eins og alþingi og kirkjuna, lög og kristniboð á Íslandi.
Greinendur og túlkendur Íslandssögu á 19. og 20. öld höfðu mikinn áhuga
á þessari gerð sagnaritunar í kjölfar þess að Íslandssaga varð akademískt
viðfangsefni, fyrst við Háskólann í Kaupmannahöfn en síðar við nýstofn-
aðan Háskóla Íslands.14
Annar angi af starfi fyrstu íslensku sagnaritaranna hefur hlotið minni
athygli enda heimildir af skornum skammti. Af þeim heimildum sem
þó hafa varðveist er greinilegt að ritun veraldarsögu hefur verið hluti af
íslenskri sagnaritunarhefð frá upphafi og má nefna tvö dæmi um það. Hið
fyrra tengist Sæmundi fróða Sigfússyni (1056–1133) en ætla má að hann
hafi ritað um veraldarsögu, eða a.m.k. um sköpun heimsins. Það rit er
glatað en vitnað er til Sæmundar í yngri ritum þar sem minnst er á sköpun
heimsins, t.d. í handritinu AM 624, 4to og í svokölluðu ágripi veraldar-
sögu í AM 764, 4to. Klausan er svohljóðandi: „Í upphafi heims, sagði
Sæmundur prestur, að sól nýsköpuð rynni upp í austri miðju, en tungl fullt
á aptni.“15 Miðaldarit um heimssögu innihéldu iðulega fróðleik af þessu
tagi og vitað er að Sæmundur var afkastamikill sagnaritari þó að ekkert af
ritum hans hafi varðveist.16
Hitt dæmið, og öllu veigameira, tengist höfundi Íslendingabókar, Ara
fróða Þorgilssyni. Stefán Karlsson telur einhverjar líkur til að Ari fróði
hafi skrifað rit sem nefnist Aldartala, ágrip af Veraldarsögu sem enn er varð-
veitt í AM 194 8vo undir heitinu heimsaldrar.17 Í því er farið í stuttu máli
yfir skiptingu veraldarsögunnar í sex heimsaldra sem samsvara æviskeiðum
mannsins, enda ríkjandi hugmynd meðal kristinna lærdómsmanna á mið-
öldum að samband væri á milli þar sem maðurinn væri hinn minni heimur
14 Sjá t.d. Ingi Sigurðsson, Íslenzk sagnfræði frá miðri 19. öld til miðrar 20. aldar. Ritsafn
Sagnfræðistofnunar, 15, Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1986, bls.
12; Gunnar Karlsson, Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I,
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2007, bls. 118–123.
15 Alfræði íslenzk II. Rímtǫl. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur
41, útg. Nathaniel Beckman og Kristian Kålund, Kaupmannahöfn: Samfund til
udgivelse af gammel nordisk litteratur, 1914, bls. 91.
16 Sjá t.d. Halldór Hermannsson, Sæmund Sigfússon and the Oddaverjar, Islandica, 22,
Ithaca, NY: Cornell University Library, 1932, bls. 33–36; Svend Ellehøj, Studier
over den ældste norrøne historieskrivning, Kaupmannahöfn: Munksgaard, 1965, bls.
15–25.
17 Stefán Karlsson, „Fróðleiksgreinar frá tólftu öld“, Afmælisrit Jóns Helgasonar 30.
júní 1969, Reykjavík: Heimskringla, 1969, bls. 328–349, hér bls. 346–349.
sVeRRiR JaKobsson