Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 158
158
Þau áhrif bárust einnig til Íslands fyrir milligöngu Jóns Halldórssonar,
norsks manns sem var biskup í Skálholti 1322–1339.49 Stjórn barst svo til
Íslands sem heild og handritið AM 226 fol. er líklega ritað af munkum í
Helgafellsklaustri, á sjöunda áratug 14. aldar.50 Er þá þessi ferð komin í
hring landfræðilega, en hún hófst með Aldartölu Ara fróða Þorgilssonar
goðorðsmanns og prests á fyrri hluta 12. aldar, en áður en Helgafell varð
klaustur var jörðin eitt af ættaróðölum Ara.
Hin snyrtilega uppbygging Aldartölu og Veraldarsögu er ekki lengur fyrir
hendi í AM 226 fol. Handritið er „sannkallaður sagnasjór: hér er frásögnin
í fyrirrúmi og hefðbundinn rammi veraldarsögunnar fjarri – varla minnst á
tímatal eða ártöl – en ef til vill má þó segja að ramminn sé undirskilinn“.51
Áheyrendur verksins hafa væntanlega þekkt veraldarsöguna nógu vel til að
finna sögunum stað innan hennar.
Fyrir hvern rituðu munkarnir í Helgafelli þessi fræði? Þar má fyrst
benda á þá sjálfa því að kristnum reglubræðrum bar að kunna skil á ver-
aldarsögunni eins og hún hafði verið kerfisbundin af bræðrum þeirra úti í
heimi. Helgafell tilheyrði Ágústínusarreglu en uppgangur hennar á Íslandi
hefur verið tengdur við áhrif hugmyndafræði munka úr Viktorsklaustri.52
Það er í hæsta máta eðlilegt að Petrus Comestor og biblíuskýrendur af
því tagi hafi verið í miklum metum hjá þessum hópi. Hinn sögulegi skiln-
ingur á Biblíunni hefur þó ekki verið bundinn við þessa tiltekna reglu enda
útbreiddur meðal alls þorra kristinna lærdómsmanna á miðöldum. Hann
hafði mótandi áhrif á þá söguskoðun sem er ríkjandi í AM 226 fol. og
öðrum íslenskum miðaldaritum um veraldarsögu, en helstu einkenni henn-
ar eru skipting veraldarsögunnar í sex heimsaldra, hugmyndir um fjögur
heimsveldi og áhersla á að saga Persa, Alexanders mikla og Rómverja sé í
eðlilegu framhaldi af þeirri sögu sem rakin er í Gamla testamentinu. Þar
sem Íslendingar voru hluti hins kristna heims var þessi saga einnig saga
þeirra.
49 Sjá Marteinn Helgi Sigurðsson, The Life and Literary Legacy of Jón Halldórsson,
Bishop of Skálholt: A Profile of a Preacher in Fourteenth-century Iceland, ópr. M.Phil.-
ritgerð, University of St. Andrews, 1997.
50 Sjá t.d. Ólafur Halldórsson, Helgafellsbækur fornar. Studia Islandica, 24, Reykjavík:
Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1966, bls. 37, 41–45, 50.
51 Svanhildur Óskarsdóttir, „Um aldir alda“, bls. 127.
52 Sjá nánar Gunnar Harðarson, Littérature et spiritualité en Scandinavie médiévale:
La traduction norroise du De arrha animae de Hugues de Saint-Victor. Bibliotheca
Victorina, 5, París, Turnhout: Brepols, 1995, bls. 21–30.
sVeRRiR JaKobsson