Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 192
192
Janice Moulton fjallar um þessa aðferð í víðlesinni grein frá 1983 og
kallar hana þar mótherjaaðferðina (e. adversary method): „Samkvæmt mót-
herjaviðmiðinu er gengið út frá því að eina, eða í það minnsta besta, leiðin
til að leggja mat á heimspekilegt verk sé að veita því hina sterkustu eða öfga-
fyllstu mótstöðu. Og það er gengið út frá því að besta leiðin til að kynna
heimspekilegt verk sé að beina því að ímynduðum andstæðingi og safna
saman öllum tiltækum gögnum því til stuðnings.“17 Moulton segir aðferð-
ina geta verið gagnlega í sumum tilvikum, sérstaklega þegar verið er að
fjalla um skýrt afmörkuð rök eða ágreining. Hins vegar sé það slæmt þegar
heimspekileg aðferð er einskorðuð við hana. Hér er ekki rúm til að rekja
allan málflutning Moulton gegn ofnotkun mótherjaaðferðarinnar en meðal
þess sem hún nefnir er að slík ofnotkun skili sér í of þröngri afmörkun á
heimspekilegum viðfangsefnum18 og slakari röksemdafærslum.19 Moulton
er ekki mótfallin notkun mótherjaaðferðarinnar en hún er mótfallin því að
hún sé látin gegna hlutverki hins eina viðurkennda viðmiðs í heimspeki.
Moulton nefnir líka að mótherjaaðferðinni fylgi gjarnan árásargjarn
stíll, sem er það sem hún telur að geti sérstaklega bitnað á konum. Í því
samfélagi sem við þekkjum er félagsmótunin á þann veg að karlar eða
drengir eru hvattir til að vera áræðnir og ákveðnir meðan sama hegðun
þykir ekki viðeigandi hjá konum eða stúlkum. Það gerir það að verkum að
konur sem vilja leggja stund á heimspeki þurfa að tileinka sér hegðun sem
þær hafa fram að því verið lattar til að sýna og sem er þeim því síður töm
en skólabræðrum þeirra. Sylvia Burrow setur fram svipaða hugmynd: að
konur geti staðið verr að vígi en karlar í hinum árásargjarna rökræðustíl
vegna þess að á þeim hvíli þyngri kröfur um að vera kurteisar.20 Einnig
17 Janice Moulton, „A Paradigm of Philosophy: The Adversary Method“, Discovering
Reality, ritstj. Sandra Harding og Merrill Hintikka, Boston: Kluwer, 1983. Tilvís-
anir hér fengnar úr endurprentun í Women, Knowledge, and Reality. Explorations in
Feminist Philosophy, ritstj. Ann Garry og Marilyn Pearsall, New York og London:
Routledge, 1996, bls. 11–25.
18 Sama rit, bls. 18–19.
19 Sama rit, bls. 20–22.
20 Sylvia Burrow, „Verbal Sparring and Apologetic Points: Politeness in Gendered
Argumentation Contexts“, Informal Logic: Reasoning and Argumentation in Theory
and Practice 3/2010, Reasoning for Change (sérútgáfa), ritstj. Phyllis Rooney og
Catherine Hundleby, bls. 235–262. Frekari útleggingar á hugmyndum Moulton
er einnig að finna hjá Phyllis Rooney, „Philosophy, Adversarial Argumentation,
and Embattled Reason“, Informal Logic: Reasoning and Argumentation in Theory and
Practice 3/2010, Reasoning for Change (sérútgáfa), ritstj. Phyllis Rooney og Catherine
Hundleby, bls. 203–234.
eyJa MaRGRét bRynJaRsdóttiR