Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 196
196
síður notuð til að gefa til kynna að viðmælandinn hafi ekki sett mál sitt nógu
skýrt fram eða að hann sé jafnvel bara eitthvað að rugla. Í heimspekilegri
orðræðu er hún mun oftar notuð í síðari skilningnum. Það getur einmitt
þurft umtalsvert traust á eigin greind til að lýsa því yfir að maður viti ekki
eða skilji ekki það sem til umræðu er, ekki síst ef slík yfirlýsing felur í sér
ásökun öðrum á hendur um óskýra framsetningu eða ósamkvæmni.
Hér kemur svindlaraheilkennið (e. impostor syndrome) líka til sögunnar.24
Svindlaraheilkennið er nokkuð sem flestir, sem hafa stundað langskólanám
eða fengist við önnur krefjandi verkefni, hafa kannski einhvern tímann
upplifað: að fá það á tilfinninguna að maður standi í raun ekki undir þeim
kröfum eða væntingum sem gerðar eru til manns og að það sé bara tíma-
spursmál hvenær aðrir í kringum mann muni fletta ofan af því. Þegar ég
hóf framhaldsnám í heimspeki í Bandaríkjunum fannst mér fyrsta misserið
hræðilega erfitt og verkefnin yfirþyrmandi. Á tímabili var ég orðin sann-
færð um að mér hefði verið hleypt inn í þetta nám fyrir mistök, að þeir sem
stjórnuðu deildinni hlytu að hafa farið línuvillt þegar þeir fóru yfir listann
yfir þá umsækjendur sem átti að hleypa inn. Fáeinum mánuðum síðar sat
ég með nokkrum skólasystkinum mínum sem höfðu líka byrjað þetta sama
haust og við fórum að ræða um líðan okkar þetta fyrsta misseri. Þá kom í
ljós að hin höfðu öll upplifað það sama. Hvert og eitt okkar hafði sem sagt
haldið sig vera miklu heimskara og vanhæfara en hin og álitið sig ófært um
að standa undir þeim kröfum sem til okkar voru gerðar.
En þó að svindlaraheilkennið sé nokkuð sem margir, bæði konur og
karlar, finna einhvern tíma fyrir þá virðist það algengara meðal kvenna og
kannski meira íþyngjandi og langvarandi. Það hefur væntanlega einmitt
eitthvað með það að gera sem ég nefndi áðan, að konum hætti frekar en
körlum til að vanmeta gáfur sínar og hæfni. Svindlaraheilkennið er svo
sannarlega þekkt vandamál meðal kvenna á fleiri sviðum en í heimspeki en
vænta má að á sviði þar sem hin óorðaða regla er sú að enginn eigi þangað
erindi nema einstakir gáfumenn, eða hreinlega snillingar, geti þetta verið
sérstakt vandamál, ekki síst í ljósi þess að skemað fyrir konur og skemað
fyrir gáfumenn eða snillinga falla illa saman og reyndar falla skemað fyrir
konur og skemað fyrir heimspekinga líka illa saman.
24 Talsvert hefur verið fjallað um svindlaraheilkennið, meðal annars má benda á Joe
Langford og Pauline Rose Clance, „The Impostor Phenomenon: Recent Research
Findings Regarding Dynamics, Personality and Family Patterns and Their Im-
plications for Treatment“, Psychotherapy: Theory, Research, Practice, Training 3/1993,
bls. 495–501.
eyJa MaRGRét bRynJaRsdóttiR