Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 197
197
Sjálfsagt er bæði heilbrigt og æskilegt að finna stundum fyrir einhverju
á borð við svindlaraheilkennið; að finna stundum til vanmáttar síns gagn-
vart einhverju stóru. Fólk sem efast aldrei nokkurn tíma um hæfni sína
hlýtur eiginlega að vera haldið mikilmennskubrjálæði eða að minnsta kosti
ofmetnaði og hroka. En þegar sjálfsefinn er orðinn lamandi er hann ekki
lengur æskilegur. Það er ekki bara gáfumannadýrkunin og óhagstæði sam-
anburðurinn við skema heimspekingsins sem geta ýtt undir slíkan sjálfs-
efa kvenna í heimspeki heldur koma þar líka við sögu þættir sem hafa
áður verið til staðar í ýmsum öðrum greinum þar sem kynjahlutföll hafa
nú jafnast. Þar má nefna skort á sýnileika kvenna í greininni eða skort á
kvenkyns fyrirmyndum. Það er mikilvægt að geta séð sjálfan sig fyrir sér
í því hlutverki sem sóst er eftir og það er mun auðveldara ef maður hefur
séð aðra í sambærilegu hlutverki sem maður samsamar sig með. Þarna
kemur skemað aftur til sögunnar: Eftir því sem fleiri konur verða sýni-
legar í heimspeki breytist skemað fyrir heimspekinga og við förum að eiga
auðveldara með að sjá konur fyrir okkur sem heimspekinga. Það að konur
séu lítt sýnilegar í heimspeki, sem höfundar þeirra texta sem lesnir eru,
sem kennarar eða sem fyrirlesarar, eykur hættuna á því að þeim finnist þær
ekki eiga erindi í heimspeki, þær upplifi sig jafnvel óvelkomnar þar og þær
efist frekar um hæfni sína til heimspekiiðkunar.
Annar áhrifaþáttur hefur verið nefndur ógn staðalímyndarinnar (e. ster-
eotype threat). Henni er lýst sem kvíða eða öðrum óþægindum sem mann-
eskja finnur fyrir í aðstæðum þar sem hún getur átt á hættu að staðfesta
neikvæða staðalímynd sem veldur því jafnvel að hún stendur sig verr en
hún hefði annars gert. Í frægri rannsókn sem gerð var snemma á tíunda
áratugnum voru hópar bandarískra háskólanema látnir taka próf sem
svartir nemendur voru þekktir fyrir að standa sig verr á en hvítir. Þegar
niðurstöðurnar voru skoðaðar kom í ljós að svartir stóðu sig einmitt verr
en hvítir. Rannsóknin var svo endurtekin með breyttum fyrirmælum þann-
ig að nemendurnir fengu þau skilaboð að prófið mældi ekki árangur sem
hefði neitt með greind að gera og við það minnkaði munurinn á árangri
svartra og hvítra verulega.25 Sambærilegar rannsóknir hafa oft verið gerðar
síðan, m.a. virðast stelpur standa sig betur, að meðaltali, á stærðfræðipróf-
um ef þær fá þau skilaboð að um sé að ræða próf sem bæði kynin standi sig
ámóta vel á. Einnig getur það haft áhrif hvaða staðalímyndir fólk er minnt
25 Claude M. Steele og Joshua Aronson, „Stereotype threat and the intellectual test
performance of African Americans“, Journal of Personality and Social Psychology
5/1995, bls. 797–811.
ER HEIMSPEKIN KVENFJANDSAMLEG?