Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 202
202
aldrei sér meðvitandi taka undir hugmyndir um að konur ættu ekki að
stunda heimspeki geta óafvitandi verið haldnir fordómum. Ógn staðal-
ímyndarinnar og skemu gáfumannsins, heimspekingsins, kvenna og karla
eru hluti af fordómum bæði kvenna og karla og hafa gjarnan áhrif á fólk
án þess að það átti sig almennilega á því. Ýmislegt bendir til þess að fólk
sem er allt af vilja gert til að vera sanngjarnt, réttsýnt og fordómalaust sé
samt sem áður haldið ýmsum fordómum sem það vildi í raun fegið vera
laust við en ræður ekki almennilega við og gerir sér kannski ekki grein
fyrir. Í samfélagi eins og okkar sem er gegnsýrt af skilaboðum um meintan
kynjamun er næsta víst að manneskja sem segir „Ég met fólk eingöngu út
frá verðleikum en aldrei út frá kyni“ sé haldin sjálfsblekkingu. Við búum
öll yfir duldum fordómum, sama hversu vel við meinum, og við gerum illt
verra með því að afneita því.33
Áhrif og útbreiðsla dulinna fordóma eru nú skoðuð í vaxandi mæli. Þar
má nefna rannsóknarverkefnið Project Implicit hjá Harvard-háskóla en á
vefsetri þess má taka próf til að kanna dulda fordóma sína gagnvart ýmsum
þjóðfélagshópum.34 Sem glænýtt dæmi má nefna rannsókn sem leiddi í
ljós að ein og sama ferilskráin fékk hærra mat frá þeim vísindamönnum
sem töldu að hún væri frá karlmanni en frá þeim sem töldu að hún kæmi
frá konu.35 Ætla má að fæstir þeirra sem tóku þátt í rannsókninni myndu
meðvitað telja sig hlynnta mismunun gagnvart konum í vísindum og að
fyrst og fremst sé þarna duldum fordómum um að kenna. Rétt er að geta
þess að ekki mældist munur á afstöðu karla og kvenna í rannsókninni.
Konur geta því verið haldnar duldum fordómum gagnvart konum (og þar
með sjálfum sér) ekkert síður en karlar.
Það að við séum öll haldin alls konar duldum fordómum bendir óneit-
anlega til þess að við séum ekki eins hlutlæg í mati okkar á öðru fólki og
við teljum okkur vera, eða vildum vera. Hér vakna vissulega spurningar
um hvað sé til ráða. Í því sambandi hefur verið talað um kosti þess að vinna
meðvitað í því að kynnast fólki af þeirri „tegund“ sem maður reynist (til
33 Brian A. Nosek, Carlee Beth Hawkins, Rebecca S. Frazier, „Implicit social cogni-
tion: From measures to mechanisms“, Trends in Cognitive Sciences 15/2011, bls.
152–159.
34 https://implicit.harvard.edu/implicit/
35 Sjá C.A. Moss-Racusin, J.F. Dovidio, V.L. Brescoll, M. Graham, J. & Handelsman,
„Science faculty’s subtle gender biases favor male students“, Proceedings of the Na-
tional Academy of Sciences, væntanlegt. Svipaðar niðurstöður fengust í margumtalaðri
sænskri rannsókn fyrir 15 árum: Christine Wennerås & Agnes Wold, „Nepotism
and sexism in peer review“, Nature 1997, bls. 341–343, doi:10.1038/387341a0.
eyJa MaRGRét bRynJaRsdóttiR