Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Side 211
211
leggja áherslu á þá þætti í nasismanum sem tengja hann, þó á mjög ýktan
og spilltan hátt, vestrænum nútíma. Kenningin um að Þýskaland nasismans
hafi verið frávik þjónar oftar en ekki hagsmunum afneitunar og gleymsku,
og alls ekki einvörðungu í Þýskalandi, en hugmyndin um að nasisminn
hafi einungis verið rökrétt niðurstaða af vestrænni þróun hefur hins vegar
beðið hnekki af því að rétttrúnaðarmarxisminn lagði kapítalisma að jöfnu
við fasisma. Slíkum smættandi niðurstöðum er auðvitað hægðarleikur að
vísa á bug. En spurningin er þó enn sársaukafull og það er erfitt að svara
henni skýrt. Það er eitt að viðurkenna að Auschwitz sé holsár í vestrænni
menningu sem hefur enn ekki gróið og mun aldrei gróa. Það er allt annað
mál að halda því fram að iðnvædd morðverksmiðja Lokalausnarinnar,
með kerfisbundinni niðurlægingu hennar á manneskjunni og skipulagðri
ofgnótt „tilgangslauss ofbeldis“ (Primo Levi) sé samofin vestrænni sið-
menningu og rökrétt niðurstaða hennar.
Á þessum tímapunkti hverfist póstmódernísk umræða um minnisleysi
um helfararminni. Þannig hefur franski heimspekingurinn Jean-François
Lyotard gengið svo langt að leggja gleymsku og bælingu helfararinnar í
Þýskalandi eftirstríðsáranna að jöfnu við það hvernig vestrænni siðmenn-
ingu almennt hefur mistekist að leggja rækt við minnið, að velta fyrir
sér eigin grundvallarvanhæfni við að samþykkja það sem er frábrugðið,
annað, og kanna afleiðingar lúmskra tengsla á milli upplýsts nútíma og
Auschwitz.7 Í þessu ljósi er nasismi óvenjulegur en ekki einstakur, þar
sem sjálfselskuórar um alveldi og yfirburði er sækja á vestrænan nútíma
hafa komið upp á yfirborðið. Sem mótvægi við heillandi vald slíkra óra
hefur Lyotard haldið því fram að viðurkenning á öðrum sem öðrum – með
sögum þeirra, metnaði, raunverulegu lífi – sé lykilatriði. Mér virðist þetta
vera siðferðilegur og pólitískur kjarni margrar póstmódernískrar, póst-
strúktúralískrar hugsunar, sem módernisminn sjálfur vísaði veginn til á
afgerandi hátt, einkum í verkum Theodors W. Adorno, sem af miklu innsæi
greindi díalektík upplýsingar og ofbeldis á þeim tíma þegar dauðaverk-
smiðjan í Auschwitz-Birkenau starfaði af fullu afli og miskunnarlausri skil-
virkni. Án minnis, án þess að lesa í menjar fortíðarinnar, getur ekki orðið
nein viðurkenning á mismun (Adorno kallaði það ekki-samsömun), ekkert
7 Jean-François Lyotard, „Ticket to a New Decor“, Copyright 1/1987, bls. 14–15.
Um tengsl helfararminnis við póstmódernisma og orðræðu sorgar, sjá verk Erics
L. Satner, Stranded Objects: Mourning, Memory, and Film in Postwar Germany, Ithaca
og London: Cornell University Press, 1990.
MINNISVARðAR OG HELFARARMINNI Á FJÖLMIðLAÖLD