Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 5
EVRÓPA: ÍMyND, HUGMyND, SJÁLFSMyND
5
þess hversu „evrópskur“ Beethoven þótti að hann varð fyrir valinu. Enn
sem komið er hefur þó enginn texti verið saminn við þennan þjóðsöng og
því er táknið enn óklárað og galopið.
Sjálfsmynd Evrópu er vissulega flókið viðfangsefni og Evrópa er ekki
Evrópusambandið þótt erfitt sé að gera greinarmun þar á í daglegu
tali. Landamæri Evrópu eru á margan hátt óljós – sbr. þátttakendur
Eurovision-söngvakeppninnar – og sjaldgæft er að menningarleg og land-
fræðileg mörk liggi saman. Til austurs hafa mörk Evrópu til að mynda
lengi verið á reiki. Í inngangsgrein sinni fer miðaldasagnfræðingurinn
Sverrir Jakobsson aftur í tímann og varpar ljósi á þá skiptingu heimsins
sem var ríkjandi í orðræðu í vesturhluta Evrasíu fram á 16. öld. Hann
fjallar um sögu hugtaksins Evrópa og það hvenær fyrst mátti greina „evr-
ópska sjálfsmynd“. Evrópubúar uppgötvuðu svo Ameríku um 1500 og
við það að finna aðrar heimsálfur breyttist heimsmynd þeirra og sjálfs-
mynd. Þeir voru sannfærðir um eigin yfirburði gagnvart öðrum þjóðum
á fjölmörgum sviðum og sjálfsmynd þeirra efldist í samræmi við það. En
Evrópa er ekki lengur það sem hún var, eða taldi sig vera, nafli alheimsins,
enda valdajafnvægi í heiminum hverfult fyrirbæri. Orðræðan um Evrópu
er einnig til umfjöllunar í grein Guðmundar Hálfdanarsonar, þar sem
sjónum er beint að Evrópusamrunanum og stöðu þjóðríkja innan ESB en
margir, einkum andstæðingar sambandsins, telja samrunann boða enda-
lok evrópskra þjóðríkja. Guðmundur rekur sögu samrunans og bendir
á að frumkvöðlar hans hafi ekki gengið út frá því að þjóðríkið og þjóð-
ernisvitund viki fyrir yfirþjóðlegri og samevrópskri vitund. Hins vegar
hafi aukin samvinna ríkjanna haft í för með sér víðtækari samræmingu á
reglum þeirra, og nefnir hann sem dæmi Bologna-ferlið sem sett hefur
svip sinn á samstarf á sviði æðri menntunar á undanförnum árum. Hann
setur loks Evrópusamstarfið í samhengi við almenna þróun í alþjóðasam-
skiptum og breytta stöðu álfunnar í heiminum. Fjöltyngi, tungumála-
kunnátta, túlkun og þýðingar koma gjarnan upp í hugann þegar minnst
er á Evrópusamstarf. Hvaða áhrif hefði aðild að Evrópusambandinu á
íslenskuna? Gauti Kristmannsson svarar þeirri spurningu í grein sinni
um málstefnu Evrópusambandsins. Hann bendir á mikilvægi þjóðtungna
eða móðurmáls í þróun þjóðríkja og lýðræðis í álfunni og að þær séu
einn af hornsteinum þess sem kalla megi evrópska sjálfsmynd, rétt eins
og þjóðfáninn. Málstefna Evrópusambandsins endurspeglar mikilvægi