Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 16
16
hennar. Þeirri innrás var svarað með gagnsókn kristinna manna sem lauk
með hertöku Jerúsalem í fyrstu krossferðinni, árið 1099. Í predikun sinni
fyrir fyrstu krossferðina ræddi Urbanus ii. páfi í Róm um lönd kristinna
manna sem stöðugt minnkandi hluta heimsins. Heiðingjarnir hefðu tekið
Asíu, þar sem trúin átti upphaf sitt, og Afríku, þar sem eitt sinn nærðust
snillingar sem hefðu gert sig ódauðlega með skrifum sínum, þar á meðal
heilagur Ágústínus og fleiri kirkjufeður. Eftir stæði einungis þriðja heims-
álfan, Evrópa, en þó aðeins að hluta „því hver segði kristnar allar þessar
barbaraþjóðir, sem byggja íshafið á fjarlægum eyjum, fyrst þær lifa eins og
skepnur?“27
Páfanum var þó tamara að tala einungis um „kristni“ (lat. Christianitas)
og á 11. öld hafði það hugtak fengið landfræðilega merkingu. Páfar tala þá
um landamörk kristni (lat. fines Christianitatis).28 Á dögum innocentiusar
iii., sem var páfi 1198–1216, var raunar bæði talað um lönd kristinna
manna (lat. terrae Christianorum), landamörk landa kristinna manna (lat.
fines Christianorum) og um hina kristnu þjóð (lat. populus Christianus).29
Ófarir kristinna manna í krossferðunum gerðu það að verkum að á
14. öld voru lönd þeirra enn á ný takmörkuð við Evrópu, en á móti kom
að kristni hafði nú breiðst út um alla álfuna. Mörk álfu og trúar féllu
betur saman um nokkurt skeið en þau höfðu áður gert. Á kirkjuþinginu
í Konstanz árið 1417 var töluvert rætt um það að landamæri hins kristna
heims hefðu færst vestur á bóginn og að nú væri einungis Evrópa kristin
(lat. sola Europa modo est Christiana).30 Undir færslu kristindómsins í vestur
ýtti einnig sigurganga Ósmanaríkisins í Austur-Evrópu á 14. og 15. öld,
en hún náði hámarki með hertöku Konstantínópel árið 1453. Á meðan
kristnir menn voru í sókn á Spáni og við Eystrasaltið var Balkanskaginn
innlimaður í hið íslamska Tyrkjaveldi. Enn á ný var blásið til krossferðar í
Róm en orðræða páfa var ólík því sem verið hafði á 11., 12. og 13. öld. Nú
var ætlunin að hrekja Tyrkina frá Evrópu (lat. ut Turchum de Europa ... fug
aremus), eins og ákveðið var á kirkjuþinginu í Mantua árið 1459.31
27 „... nam omnem illam barbariem quae in remotis insulis glacialem frequentat
oceanum, quia more belluino victitat, Christianam quis dixerit?“, Willelmi Malm
esbriensis monachi De gestis regum Anglorum libri quinque: Historiae novellae libri tres,
ritstj. William Stubbs, London: Rolls Series, 1887–1889, ii, bls. 395.
28 Denys Hay, Europe. The Emergence of an Idea, bls. 29.
29 Sama rit, bls. 35.
30 Sama rit, bls. 80.
31 Annales Ecclesiastici XXiX, 1453–1480, ritstj. Odorico Raynaldi, Barri-Dux: Conso-
ciatio Sancti Pauli, 1880, bls. 281.
SVERRiR JAKOBSSON