Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 78
78
þjóðlegum.20 Hastings vekur líka athygli á að klofningur innan kirkjunnar
á síðari öldum hafi gjarnan verið nátengdur þjóðernispólitískum átökum.
Í vissum tilvikum hafi sjálfstæð þjóðkirkja gert mönnum auðveldara fyrir
að halda því fram að íbúar á tilteknu landsvæði væru útvalin þjóð.
Væntanlega hafa Anderson og Hastings báðir nokkuð til síns máls.
Í sumum Evrópuríkjum, til að mynda á Írlandi, fléttast trúarvitund og
þjóðarvitund augljóslega saman. Annars staðar, til að mynda í Frakklandi,
verður þjóðríki nútímans til eftir blóðuga uppreisn gegn völdum kon-
ungs og kirkju. Í slíkum tilvikum eru tengsl trúar og þjóðernis ekki síður
mikilvæg, þótt með öðrum hætti sé. David A. Bell, sem grafist hefur fyrir
um rætur franskrar þjóðernishyggju milli 1680 til 1800, bendir á að á
þessu tímabili hafi mátt greina vaxandi dýrkun á ýmsum „hetjum“ úr fortíð
Frakklands. Minningu þeirra var haldið á lofti í ræðu og riti, með kvæðum,
tréristum, málverkum og styttum. Upphafningin byggði að nokkru leyti
á klassískum fyrirmyndum, svo sem forngrískum og rómverskum högg-
myndum og ævisagnaskrifum Plútarks, en þeir frönsku rithöfundar og
listamenn sem að starfinu komu sóttu jafnframt „í trúarlegt líkinga- og
táknmál til að ýta undir átrúnað á hin veraldlegu goðmögn föðurlands-
ins“.21 Bell vitnar meðal annars til ræðu sem Jean-Paul Rabaut de Saint-
Etienne flutti á þjóðþinginu í París árið 1792 um menntun í hinu nýja,
upplýsta og frjálsa franska ríki en þar var horft með vissri öfund til þjóna
kirkjunnar „sem með fermingarundirbúningi sínum, skrúðgöngum [...],
helgisiðum, predikunum, sálmum, trúboði, pílagrímaferðum, verndardýr-
lingum, málverkum og öllu því sem náttúran hefur lagt þeim í hendur,
leiddu menn ófrávíkjanlega að settu marki“.22 Enda þótt byltingarmenn-
irnir vildu draga úr áhrifum kirkjunnar innan samfélagsins gátu þeir ýmis-
legt af henni lært. Aðferðarfræðin fólst oftar en ekki í því sem kallað hefur
verið uppskafningur en orðið vísar til þeirra aðferðar miðaldaskrifara að
skafa burt tiltekin orð í texta, án þess að útmá þau að fullu, og skrifa ný
orð ofan í þau.23 Hér má taka dæmi af einu þekktasta minnismerki frönsku
20 Adrian Hastings, The Construction of Nationhood. Ethnicity, Religion and Nationalism,
Cambridge og New york: Cambridge University Press, 1997, bls. 193.
21 David A. Bell, The Cult of the Nation in France: Inventing Nationalism, 1680–1800,
Cambridge, Massachusetts og London, Englandi: Harvard University Press, 2001,
bls. 108.
22 Sama rit, bls. 3.
23 Sjá til dæmis Gérard Genette, Palimpsests. Literature in the second degree, þýð.
Channa Newman og Claude Doubinsky, Lincoln og London: University of Ne-
braska Press, hér bls. 398–399. Hugmyndin að notkun orðsins uppskafningur í
JÓN KARL HELGASON