Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 104
104
Liggja rætur illrar meðferðar á náttúrunni
í kristnum hugmyndaheimi?
Óhætt er að fullyrða að grein miðaldasagnfræðingsins Lynns White frá
árinu 1967, „The Historical Roots of Our Ecologic Crisis“, hafi hrundið
af stað skriðu guðfræðilegra skrifa um eyðingu lífríkis og náttúrugæða en
hann hélt því fram að sigur kristinnar trúar yfir heiðni hefði smám saman
breytt afstöðu vestrænna manna til náttúrunnar.17 Ein meginstaðhæfing
greinar hans er að mannmiðlægni (e. anthropocentrism) kristninnar eigi sér
ekki hliðstæður í öðrum trúarbrögðum. Sú sérstaða sem kristin trúarbrögð
hefðu þannig skapað manninum væri orsök þess að á þeim stöðum þar
sem kristin trú væri ríkjandi hefði mannskepnunni leyfst að ráðskast með
náttúruna á annan og afdrifaríkari hátt en tíðkist víðast hvar. Niðurstaða
Whites var sú að hinn vestræni maður, með tilstyrk kristinnar trúar, væri á
góðri leið með að skaða og eyðileggja jörðina alla. White skrifar:
Einkum og sér í lagi í sínum vestræna búningi er kristindómurinn
ein mannmiðlægustu trúarbrögð sem heimurinn hefur getið af sér
. . . Kristni, andstætt því sem gerðist í fornheiðni og í trúarbrögðum
Asíu, hefur ekki aðeins lagt grunn að andstæðu sambandi manns og
náttúru heldur einnig haldið því fram að það sé Guðs vilji og rétt
markmið að arðræna jörðina.18
Femínískir guðfræðingar tóku frá upphafi mark á túlkun Lynn White eins
og glöggt má sjá í bók Rosemary Radford Ruether frá 1975, New Woman,
New Earth. Sexist Ideologies and Human Liberation.19 Þar gengur hún á
17 Lynn White, „The Historical Roots of Our Ecological Crisis“, This Sacred Earth.
Religion, Nature, Environment, ritstj. Roger S. Gottlieb, New york & London:
Routledge, 1996 [1967], 184–193.
18 Sama rit, bls.187.
19 Þótt guðfræðingar hafi tekið mikið mark á grein Lynns White er það langt því frá
svo að ekki hafi einnig komið fram viss gagnrýni á innihald hennar. Dæmi um gagn-
rýna túlkun á staðhæfingum Whites um að kristni sé mannmiðlægari trúarbrögð en
önnur sambærileg hefur komið meðal annars frá Elizabeth A. Johnson. Hún bendir
á að fyrstu fimmtán aldir kristni hafi þess konar mannmiðlægni sem White talar um
ekki verið til staðar í trúfræðilegri og siðfræðilegri túlkun kristinna guðfræðinga.
Langt fram á miðaldir hafi Guð, heimur og mannkyn verið túlkuð sem ein, lifandi
og heilög heild. Ályktun Johnson er sú að mannmiðlægni sé ekki innbyggð í kristin
trúarbrögð heldur hafi ytri aðstæður orðið til þess að hún hafi eflst svo mjög. Sjá
Elizabeth A. Johnson, „Losing and Finding Creation in the Christian Tradition“,
Christianity and Ecology, Cambridge, Mass: Harvard University Press, 2000, bls.
3–21.
SólveiG AnnA BóASdóttiR