Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 168
168
reynir að skrauthverfa sem „líkamann“ þó að Steinn Finnur haldi fast við
fyrri skilgreiningu.54 Allan tímann leynir sér ekki að Frímann hefur lítinn
áhuga á þessum ófræga og hálfmisheppnaða bróður en þeim mun meiri
áhuga á hinum fræga og vinsæla Kára Brands sem hann nær þó aldrei tali
af.55 Þó að Frímann þykist vera áhugasamur um listir yfirleitt blasir þannig
við að áhugi hans er einkum á vinsælum listamönnum sem búa til afurðir
sem seljast vel, á listinni sem vöru eða iðnaði. Í lok viðtalsins kemur Kári
Brands aðvífandi og Frímann flytur tilfinningaþrungið eintal um samband
bræðranna sem er algjörlega á skjön við það sem áhorfandinn sér í mynd
(rifrildi bræðranna).56 Um leið og Steinn Finnur afhjúpast sem misheppn-
aður og ósáttur listamaður afhjúpast Frímann sem hliðstæða hans. Honum
hefur ekki heldur tekist að ræða við Kára Brands, manninn sem hann þráir
að komast nálægt.57 Þess í stað situr hann uppi með allsendis ófrægan
bróður hans.
54 Sigtið i, 1, 4:10–4:19, 4:55–5:03, 10:08–11:57. Steinn Finnur er órakaður í rauðum
Che-bol og geislar ekki beinlínis af gleði og sjálfsöryggi. Hann kemst lítið að í þætt-
inum þar sem Frímann grípur stöðugt fram í fyrir honum og heldur langar ræður
yfir honum um hvaðeina sem í hugann kemur og tengist list ekki neitt á milli þess
sem hann spyr heimskulegra spurninga sem Steinn Finnur á fá svör við.
55 Í kynningu þáttarins er Kári þannig kynntur sem meginefni þáttarins áður en kemur
í ljós að Frímann hefur ekki náð viðtali við hann, aðeins bróður hans (sjá nmgr.
5). Aftur og aftur víkur Frímann talinu að Kára og spyr Stein Finn um hann og
að lokum hvort þeir bræður hyggist vinna saman en svarið við því er: „Við höfum
ekki unnið saman og hyggjumst ekki vinna saman í bráð“, þannig að þar grípur
Frímann í tómt (sjá m.a. Sigtið i,1, 7:20–7:46, 16:46–17:06, 19:40–20:07). Hann
spyr líka föður þeirra bræðra, Brand Árnason geðlækni, um þá báða og einnig
Brandur virðist hrifnari af Kára en andlit hans verður steinrunnið þegar talið berst
að Steini Finni og m.a. vinnu hans „með typpið á sér“ sem Brandur kannast ekkert
við (6:18–6:48, 15:08–15:43).
56 „Þegar ég fylgdist með þessum bræðrum, listamönnum, tala saman, þá komst ég
ekki hjá því að velta því fyrir mér hvað þeir voru að tala um. Voru þeir að ræða
áform sín í framtíðinni, hugsanlega samvinnuverkefni? Eða voru þeir að líta yfir
farinn veg, bera saman bækur sínar? Eldri, reyndari, frægari bróðirinn að benda
þeim yngri, sem hafði verið meira leitandi í gegnum tíðina, á hvað mætti hugsanlega
betur fara í sköpun hans svo að hann næði betur augum og eyrum hins almenna
áhorfanda?“ (Sigtið i, 1, 18:59–19:31).
57 Víðar í Sigtinu kemur fram hversu mjög Frímann viðrar sig upp við fræga lista-
menn, einkum Kára Brands og rithöfundinn Anton Garðar, og eltingarleikur
hans við þá kemur við sögu í mörgum þáttum seinni syrpu (til dæmis „Vitanum“,
„Sambandinu“ og „Listalestinni“). Listamennirnir þurfa reyndar að vera frægir og
vinsælir meðal almennings til að Frímann sýni þeim áhuga.
ÁRMANN JAKOBSSON