Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 208
208
rétt eins og tvíhyggja marxismans. Frjálshyggjan er öfgastefna og því engin
tilviljun að fylgismenn hennar séu veikir fyrir hinni poppersku tvíhyggju.
Í öðru lagi sýnist mér Popper lýsa vísindunum sem eins konar markaði
þótt hann noti ekki það orð. Vísindalegar kenningar keppi með frjálsum
hætti um hylli sannleikans sem virkar eins og neytandinn á markaði. Þær
kenningar sem falla á prófi reynslunnar eru eins og fyrirtæki sem fara á
hausinn því þau standast ekki kröfur markaðarins. Nefna má að Hannes
H. Gissurarson eignar Popper þá skoðun að í heimi vísindanna ríki frjáls
samkeppni hugmynda.13 Engan skyldi því undra þótt Hannes og fleiri
frjálshyggjumenn séu hrifnir af vísindaheimspeki Poppers.
Þriðja ástæðan fyrir því að Popper hefur verið (eða var) dýrkaður í
vissum kreðsum er sú að hann býður upp á lykil að öllum skrám, altæka
heimspeki sem spannar jafnt heim mannsins sem náttúrunnar, stjórnmála
sem verufræði. Altæk speki á borð við „popperisma“ og „marxisma“ veitir
vissum mönnum öryggi rétt eins og trúarbrögðin.
Ég nefndi breska heimspekinginn Bryan Magee fyrr í þessari grein,
hann sat á þingi fyrir Verkamannaflokkinn og var framarlega í flokki þeirra
sem blótuðu Popper enda náinn vinur hans. Frjálshyggjumenn eiga nefni-
lega engan einkarétt á að dýrka Popper, kratinn Magee skrifaði um Popper
í lotningartón, segir að enginn skynsamur maður geti lesið gagnrýni
Poppers á marxismann án þess að viðurkenna að sú stefna sé hjáfræði.14
„Mikil er trú þín kona.“
Þessi trúarlega hrifning krataþingmannsins á Popper ætti ekki að vekja
furðu í ljósi hinna sterku kratísku hneigða í stjórnspeki Poppers.15 Það fylgir
sögunni að þýskir kratar reyndu að eigna sér hann og var gefið út safnrit því
til stuðnings fyrir þrjátíu og fimm árum, formálann ritaði Helmut Schmidt,
þýskur kanslari og erkikrati.16 „Allar vildu meyjarnar eiga hann.“
Vísindaheimspekimeyjar vorra tíma eru ekki ýkja uppveðraðar yfir
Popper en vísindaheimspeki hans hefur átt fremur erfitt uppdráttar síð-
ustu árin. Vísindaheimspekingar nútímans viðurkenna að hann hafi verið
merkur brautryðjandi en segja flestir að kenningar hans hafi ekki staðist
13 Hannes H. Gissurarson, Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1998, bls. 44.
14 Bryan Magee, Popper, Harmondsworth: Penguin, 1973, bls. 92.
15 Bryan Magee sat á þingi fyrir Verkamannaflokkinn breska frá 1974 til 1982 þegar
hann snerist til fylgis við Frjálslynda flokkinn.
16 Helmut Schmidt, „Vorwort“, Kritischer Rationalismus und Sozialdemokratie, ritstj.
G. Lührs og fleiri, Berlín: Verlag J.H.W. Dietz, 1975, bls. vii–xvi.
STEFÁN SNÆVARR