Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 14
14
á 4. og 5. öld hafði umræða um þær pólitískt innihald; stuðningsmenn
Makedóníukonunga litu til dæmis á veldi þeirra sem mótvægi við hið
asíska Persaveldi.19 Þessi tvíhyggja missti alla pólitíska og hugmyndalega
merkingu eftir daga Alexanders mikla þegar hellenísk ríki skutu rótum í
öllum heimsálfunum þremur. Á meðan grískumælandi arftakar Alexanders
ríktu á Grikklandi, í Sýrlandi og í Egyptalandi virtist það sem sameinaði
álfurnar vera mun meira en það sem aðgreindi þær. Hellenísku ríkin lutu
að lokum í lægra haldi fyrir heimsveldi Rómverja, sem tóku ekki einungis
við pólitísku forræði um allt Miðjarðarhaf heldur gerðust einnig vörslu-
menn hinnar klassísku grísku menningar sem blandaðist hinni rómversku.
Stundum er litið á Rómarveldi sem dæmi um evrópskt stórveldi en miðja
þess var Miðjarðarhafið (sem Rómverjar kölluðu mare nostrum) og þá ekki
síður Afríku- og Asíuhluti þess. Í ritum rómverskra landfræðinga er lít-
ill eðlismunur á Evrópu og öðrum heimsálfum; þeir litu ekki á útþenslu
Rómaveldis sem sókn Evrópu enda þótt þeir væru oft tortryggnir á erlenda
siði og lifnaðarhætti, þar á meðal austurlenska.20
útbreiðsla kristni innan Rómaveldis hafði áhrif á ríkjandi söguskoðun
en á 4. og 5. öld tók hún í auknum mæli mið af þeirri sögu mannkyns sem
rakin var í Biblíunni. Þar varð þrískipting heimsins í kjölfar Nóaflóðsins
viðmið sem þótti mikilvægt að leggja til grundvallar. Heimsbyggðin hlyti
öll að vera komin af þremur sonum Nóa, Sem, Kam og Jafet, og eigin-
konum þeirra. Það var gyðingur í þjónustu Rómverja, Flavius Josephus,
sem fyrstur samþætti upprunagoðsagnir Biblíunnar við grísk-rómverska
landafræði, en hann ritaði um sögu gyðinga á grísku á 1. öld. Afkvæmi
sonanna þriggja deildust þó ekki á heimsálfurnar þrjár heldur bjuggu
afkomendur Sems í Asíu, afkomendur Kams í Afríku en afkvæmi Jafets
að hluta til í Evrópu og að hluta í vesturhluta Asíu, vestan við ána Efrat.21
Þessi hugmynd hafði síðan áhrif á kristna landfræðinga sem voru mótaðir
af sagnaarfi Biblíunnar, ekkert síður en grísk-rómverskri heimsmynd. Á
landakortum og í ýmsum kennslubókum frá miðöldum er þrískiptingin
19 Sjá Arnaldo Momigliano, „L’Europa come concetto politico presso isocrate e gli
isocratei“, Rivista di filologia e d’istruzione classica 61/1933, bls. 477–487.
20 Sjá Pim den Boer, „Europe to 1914: The Making of an idea“, The History of the
Idea of Europe, ritstj. Kevin Wilson og Jan van der Dussen, London og New york:
Routledge, 1995 [1993], bls. 13–82, hér bls. 18–19.
21 Flavii Iosephi opera omnia, i , ritstj. immanuel Bekker, Leipzig: Teubner, 1855, bls.
23–28.
SVERRiR JAKOBSSON