Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 213
213
Hume að ekki væri hægt að sanna kenningar með tilleiðslu.25 Þótt allir
svanir sem við höfum hingað til séð hefðu verið hvítir þá þýðir það ekki að
allir svanir hljóti að vera hvítir. Evrópubúar héldu lengi að allir svanir væru
hvítir þangað til þeir uppgötvuðu svarta svani í Ástralíu. Þýðir þetta að nú
getum við vitað með vissu að allir svanir séu annaðhvort hvítir eða svartir?
Hreint ekki, við getum ekki útilokað að einhvers staðar leynist svanur með
annan lit, til dæmis gætu grænir svanir leynst í Amasonfrumskóginum.
Alhæfingar á grundvelli tilleiðslu eru fallvaltar, við getum ekki sannað
neitt með öruggri vissu ef við beitum tilleiðslu. Popper þróaði gagnrýni
Humes á tilleiðslu og steig feti framar en skoski heimspekingurinn. Lítum
á eftirfarandi dæmi af rökleiðslu í anda tilleiðslu:
1. forsenda: Hér er einn svanur og hann er hvítur.
2. forsenda: Hér er annar svanur og hann er hvítur.
3. forsenda: Hér er þriðji svanurinn og hann er hvítur
100.000. forsenda: Hér er milljón trilljónasti svanurinn og hann er
hvítur.
Niðurstaða: Allir svanir eru hvítir.
Gallinn er sá að niðurstaðan er ekki einungis fallvölt heldur rökleysa.
Ástæðan er sú að niðurstaða úr rökleiðslu má ekki innihalda neitt sem
ekki er þegar í forsendunum. Leita má með logandi ljósi í forsendunum að
lykil orði niðurstöðunnar „allir“ eða samheitum þess. Við hröpum hér að
niður stöðum, gefum út innistæðulausan rakatékka. Tilraunir til að sann-
reyna (e. verify) tilgátur með fulltingi tilleiðslu eru því dæmdar til að mis-
takast.26 Réttara sagt þá getum við ekki fundið óyggjandi sannanir sem
eitthvað púður er í. Nóg er af auðfundnum sannindum en þau eru venju-
lega sjálfsögð. Yrðingin „A er A“ er örugglega sönn en hún segir okkur
ekkert um veröldina. Auk þess er engin sérstök ástæða til að neita því að
til séu fleiri en þrír kettlingar á jarðarkringlunni.27 Meinið er að þetta eru
sjálfsögð sannindi og örugglega ekki vísindakyns. Reyndar er staðhæfingin
um kettlingana þrjá strangt til tekið ekki örugglega sönn, ekki er hægt að
útiloka að kettlingar séu ekki til, að þeir séu blekking. En afsönnunargildi
staðhæfingarinnar er afar lítið, gagnstætt góðri vísindakenningu.
25 Til dæmis David Hume, Rannsókn á skilningsgáfunni, þýð. Atli Harðarson, Reykja-
vík: Bókmenntafélagið, 1988, bls. 126–129.
26 Karl Popper, Objective Knowledge, Oxford: Clarendon Press, 1972, bls. 1–31.
27 Dæmið er mín eigin smíð.
AÐFERÐ OG AFSÖNNUN