Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 229
229
virknisháttum og er hvorki betri né verri en önnur festi. Staðhæfingin um
að vísindi séu vitrænni en meint gervivísindi væri þá álíka gáfuleg og hug-
myndin um að reglur taflsins séu betri en reglur fótboltans.
Í níunda lagi er spurning hvort Popper hafi átt verulega gott móteitur
við gagnrýni Thomasar Kuhn. Kuhn andæfði þeirri hugmynd Poppers að
kenningin væri þungamiðja vísindanna, sú þungamiðja væri viðtakið (e.
paradigm) sem er flókinn vefur kenninga, virknishátta og hugmynda um
aðferðir. Sérhvert viðtak væri stofnun, sérstakur heimur með sinni eigin
aðferðafræði og kenningum, viðtökin væru ekki sammælanleg (e. commen
surable). Tvær kenningar eru ósammælanlegar ef vandkvæði eru á að þýða
þær hvora á mál annarrar. Ef hægt er að þýða þær með þeim hætti að
þýðingin sé sem spegilmynd hins þýdda þá eru þær sammælanlegar. Því
er ekki að heilsa þegar viðtök eru annars vegar, að þýða kenningu í einu
viðtaki á mál annars viðtaks er eins og að þýða ljóð.
Þegar eitt viðtak líður undir lok og annað tekur við er sem vísindamenn
upplifi skynhvarfir (e. GestaltSwitch). Dæmi um skynhvörf er þegar menn
hætta allt í einu að sjá héraandarmynd sem héra og fara að sjá þar önd.67
Því er út í hött að velta því fyrir sér hvaða viðtak sé best eða næst sann-
leikanum og þess vegna ekki hægt að tala um framfarir í vísindum, aðeins
framfarir innan ramma gefinna viðtaka. Sérhvert viðtak hefur sinn eigin
mælikvarða á rétt og rangt. Því hafði Popper á röngu að standa er hann
hélt að vísindaheimspekingar gætu búið til forskriftir fyrir góð vísindi,
sérhvert viðtak hefur sína eigin forskrift. Hvorki er hægt að skilja né beita
þeim nema að hafa innhverft viðtakið, vera vísindamaður sem starfar á þess
forsendum í félagi við aðra. Ein af ástæðunum fyrir því er sú að þekking
vísindamanna er þögul, þekking eða kunnátta sem menn hafa en geta ekki
tjáð almennilega í orðum. Við kunnum að hjóla án þess að geta tjáð kunn-
áttuna í orðum, engin forskrift getur kennt okkur að hjóla vel.68 Tómt mál
67 Hugmyndin um að skynhvörf eigi sér stað í vísindum er ættuð frá Norwood
Russell Hanson. Hann sagði að jarðmiðjusinninn Tycho Brahe og sólmiðjusinn-
inn Johannes Kepler hafi ekki séð það sama þegar þeir horfðu á sólina rísa. Brahe
sá afleiðingu af meintri hreyfingu sólar á meðan Kepler sá afleiðingu af snúningi
jarðar. Sjá N. R. Hanson, Patterns of Discovery, bls. 5. Rétt eins og Popper stökk
Kuhn ekki alskapaður út úr höfði Seifs. Hann er líka undir sterkum áhrifum frá
öðrum spekingum, þar á meðal Hanson.
68 Hugmyndin um að vísindaleg þekking sé að miklu leyti þögul (e. tacit knowledge)
er ættuð frá bresk-ungverska fræðimanninum Michael Polanyi; Michael Polanyi,
Personal Knowledge, Chicago: Chicago University Press, 1958.
AÐFERÐ OG AFSÖNNUN