Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 80
80
hliðstæðum hætti hefur verið rýmt til í kringum gröf danska ævintýra-
skáldsins í Hjástoðarkirkjugarði í Kaupmannahöfn. Andersen var upp-
haflega jarðsettur þarna 1875 í grafreit sem Edvard, sonur Jonasar Collin,
hafði tryggt sér og sínum. Rúmum áratug síðar var Edvard jarðsettur þarna
og 1894 bættist Henriette eiginkona hans í hópinn. Reistur var legsteinn
til minningar um þau hjónin en árið 1914 var hann fluttur í kirkjugarðinn
á Friðriksbergi þar sem flestir úr Collin-fjölskyldunni höfðu verið grafnir.
Andersen virðist því hvíla einn í sínum grafreit þó að raunin sé önnur.26
Honum er enn hampað af kirkjugarðsyfirvöldum; gröfin er sérstaklega
merkt á kortum og með vegvísum og nýlega komu út þrír bæklingar þar
sem tengsl skálds og kirkjugarðs eru í brennidepli.27
Í bók sinni The Political Lives of Dead Bodies (Pólitískt líf dauðra skrokka)
bendir bandaríski mannfræðingurinn Katherine Verdery á að lík og lík-
neski eigi ýmislegt sameiginlegt.28 Ekki er stór merkingarmunur á því að
smyrja líkama Leníns og hafa til sýnis í grafhýsi á Rauða torginu í Moskvu
eða steypa eirlíkneski af Lenín og hafa til sýnis á fótstalli á Októbertorginu
í sömu borg. Í báðum tilvikum er verið að varðveita líkamsmynd hins
látna, gefa til kynna að viðkomandi sé í einhverjum skilningi enn á meðal
vor. Hér að framan var gerð stutt grein fyrir fyrstu styttunum sem afhjúp-
aðar voru af Prešeren og Andersen í Ljúblíana og Kaupmannahöfn en
ef meta á gildi og merkingu slíkra minnismerkja er nauðsynlegt að huga
að staðsetningu þeirra. Ætla má að þeim mun miðlægara sem líkneski er
í opinberu rými, því mikilvægara sé hlutverk viðkomandi einstaklings í
samfélaginu. Staðsetning styttunnar af Prešeren er athyglisverð í þessu
sambandi. Skáldið stendur á torgi sem myndaðist á miðöldum framan við
gamla borgarhliðið í Ljúblíana. út frá því lágu þjóðbrautir til ólíkra átta
og þar mætast enn veigamiklar götur. Á aðra hönd rennur árin Ljúblíaníka
en á hina rís höfuðkirkja sem kennd er við boðunardag Maríu. Andersen
hefur ekki eins miðlæga stöðu í Kaupmannahöfn en tvö líkneski hans þar
26 Gitte Lundig Johansen, Hans Christian Andersen’s Grave – The True Story, Kaup-
mannahöfn: Kulturcentret Assistens, 2005, bls. 17.
27 Bæklingarnir eru þessir: Christoffer Jørgensen, H.C. Andersen – Blandt slægt og
venner på Assistens Kirkegård, Kaupmannahöfn: Kulturcentret Assistens, 2005;
Caspar Andreas Jørgensen, H.C. Andersen og kirkegården – om hvordan døden og
kirkegården er behandlet i H.C. Andersens digtning, Kaupmannahöfn: Kulturcentret
Assistens, 2005 og Gitte Lunding Johansen, Historien om H.C. Andersens gravsted
med tekst af centerleder, Kaupmannahöfn: Kulturcentret Assistens, 2005. Vísað er í
enska útgáfu síðastnefndu bókarinnar í neðanmálsgrein 26.
28 Katherine Verdery, The Political Lives of Dead Bodies, bls. 5 og 12.
JÓN KARL HELGASON