Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 26
26
Brussel og því geti þau ekki talist fullvalda lengur. Þessa skoðun má meðal
annars finna í skrifum Ragnars Arnalds, fyrrverandi ráðherra og núver-
andi stjórnarmanns í Heimssýn, félagi sem berst gegn aðild Íslendinga að
Evrópusambandinu. Fyrir rúmum áratug skrifaði hann að ESB væri „þessi
árin að þróast hratt úr bandalagi sjálfstæðra ríkja í miðstýrt stórríki með
stjórnarstofnunum sem ekki eru byggðar á lýðræðislegum grundvelli“.4
Túlkaði Ragnar sambandið sem eins konar samsæri evrópskra stjórnmála-
manna og skriffinna í Brussel, sem „keyra samrunahraðlestina áfram á
fullum hraða, hvort sem farþegunum líkar betur eða verr“5 – með það að
markmiði að auka eigin völd á kostnað evrópskra borgara og þjóðlegra
stjórnarstofnana aðildarríkjanna.
Skoðanaágreiningur um Evrópusambandið endurspeglar ólík viðhorf
til stjórnmála sem mörg hver hafa í rauninni lítið með sambandið sjálft að
gera. Þannig gagnrýna þeir sem teljast til hægri á litrófi stjórnmálanna ESB
oft fyrir að takmarka markaðsfrelsi um of með flóknu regluverki á meðan
ýmsir sem staðsetja sig til vinstri í pólitíkinni telja þvert á móti að ESB sé
einn helsti málsvari óhefts markaðskerfis og nýfrjálshyggju í Evrópu.6 Þá
má einnig skýra ólíkar hugmyndir um áhrif ESB á framtíð þjóðríkja og
ríkjaskipun í álfunni með því að stefna sambandsins í þessum efnum hefur
virst bæði misvísandi og óljós. Að sumu leyti hefur Evrópusambandið stutt
við tilvist þjóðríkja, líkt og Milward hefur haldið fram, enda er það – hvað
sem andstæðingar sambandsins segja – í eðli sínu klúbbur fullvalda ríkja
sem öll standa dyggan vörð um hagsmuni sína og sérstöðu. En á sama
tíma grefur Evrópusamruninn undan mikilvægum stoðum þjóðríkjanna,
og því er nokkuð óráðið hvernig þeim muni farnast í Evrópusambandi
framtíðarinnar – eða hvort Evrópusambandið sem slíkt breytir nokkru um
það hvort þau dafna eða hverfa. Hér takast á margs konar sjónarmið og
væntingar, auk þess sem félagslegar og efnahagslegar aðstæður í Evrópu
og heiminum í heild móta stöðu þjóða og þjóðríkja í álfunni. Frumkvöðlar
Evrópusamrunans gengu út frá því að þjóðerni og þjóðernistilfinningar
væru það rótgrónar í evrópskri menningu að þeim yrði ekki haggað þótt
4 Ragnar Arnalds, Sjálfstæðið er sívirk auðlind, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1998, bls.
154.
5 Sama rit, bls. 41.
6 Sem dæmi um fulltrúa slíkra skoðana má nefna Hjört J. Guðmundsson, „Eiga
íslenskir hægrimenn samleið með ESB?“, Þjóðmál 7:1, 2011, bls. 70–76 og Þórarin
Hjartarson, Heimsvaldakerfið – ESB – Ísland, Reykjavík: Rauður vettvangur, 2009,
bls. 21–36.
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON