Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 15
15
hins vegar einfölduð þar sem Asía er tengd við Sem, Afríka við Kam og
Evrópa við Jafet.22
Í lærdómsritum kristinna manna á miðöldum var heimsmyndinni iðu-
lega lýst á þann veg, bæði með myndrænum hætti og ómyndrænum, að
heimsálfurnar væru þrjár og íbúar þeirra væru afkomendur eins af þremur
sonum Nóa. Þessi lærða þrískipting hafði hins vegar lítil áhrif á sjálfsmynd
kristinna manna sem mótaðist fremur af andstæðum kristni og annarra
trúarbragða (sem kölluðust þá einu nafni heiðni). Hinn kristni heimur
var hvorki takmarkaður við Evrópu né spannaði hann alla álfuna. Þvert
á móti voru mikilvægustu lönd hins kristna heims í Asíu og þá ekki síst
Palestínu. Þau lönd lutu múslímum frá og með sjöundu öld en kristnir
menn litu ekki svo á að sá landamissir væri varanlegur. Í augum þeirra var
Jerúsalem ennþá miðja heimsins.23 Þar að auki eignuðust múslímar einnig
ríki í Evrópu, til dæmis á Spáni og á Sikiley.
Um miðja áttundu öld kallaði annálaritarinn isidorus Pacensis her
Franka sem barðist við múslíma við Tours „Evrópumenn“ (lat. Europe
enses).24 Karlamagnús, Frankakóngur og síðar keisari (r. 768–814), var
stundum kallaður faðir Evrópu (lat. pater Europae) eða höfuð Evrópu (lat.
Europae apex), en þess konar dæmi eru fremur undantekning en regla og
eru einungis vísbending um notkun hugtaksins í skamman tíma, skömmu
fyrir og eftir árið 800.25 Í Norður-Evrópu voru svo heiðin lönd en kristn-
un þeirra hófst ekki af alvöru fyrr en á 10. öld og lauk ekki að fullu fyrr en
Litháar tóku kristni árið 1387.26 Þegar norrænar þjóðir tóku kristni var
Evrópa ekki hluti af hugmyndaheimi þeirra; orðið er sjaldgæft í norrænum
bókmenntum 13. og 14. aldar.
Litla-Asía (Anatólía) tilheyrði ennþá Rómaveldi, allt fram á seinni
hluta 11. aldar, þegar hinir tyrknesku Seldsjúkar hernámu stóran hluta
22 Sjá Pim den Boer, „Europe to 1914: The Making of an idea“, bls. 24–25; Denys
Hay, Europe. The Emergence of an Idea, bls. 38–39.
23 Viðhorf Íslendinga voru í samræmi við ríkjandi viðhorf í hinum kristna heimi, sjá
Sverrir Jakobsson, Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100–1400, Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 2005, bls. 162–164.
24 Sjá Patrologiae cursus completus. Series latina 96, ritstj. Jacques Paul Migne, París:
Petit-Montrouge, 1851, d. 1271.
25 Walter Ullmann, The Growth of Papal Government in the Middle Ages, London:
Methuen, 1955, bls. 95.
26 William Chester Jordan, „’Europe’ in the Middle Ages“, The Idea of Europe from
Antiquity to the European Union, ritstj. Anthony Pagden, Washington: Woodrow
Wilson Center Press og Cambridge: Cambridge University Press, 2002, bls. 72–90,
hér bls. 75–76.
HUGMyNDiN UM EVRÓPU FyRiR 1800