Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 193
193
að gera gott úr samkvæmum með vinum hans. En ekkert gengur, honum
tekst ekki að komast yfir vanlíðan sína og lesandinn finnur fljótlega að
sambandið er dauðadæmt. Þrátt fyrir þá staðreynd að hann er þekktur og
virtur rithöfundur, vekur það undrun að hve miklu leyti hamingja hans
veltur á dómi annarra, ekki á skáldverkum hans, heldur einkalífi. Maður
fær á tilfinninguna að hann vildi helst að Sophie væri öðruvísi en hún er en
á sama tíma alveg eins. En „að stinga upp á því við einhvern að hann verði
annar, að hann breyti sér, er eins og að benda honum á að hætta að vera
hann sjálfur,“ 41 og það er ekki hægt.
Að lokum mætti segja sem svo að hugtakið um persónulega samsemd
sé flókið og fjölbreytt, að það mótist af áhorfi annarra en sé hægt að draga
saman í tvö meginlögmál:
Óhagganleika persónuleikans og samhengi minninganna. […] Minn-
ingar mynda […] samhangandi keðju: við sjáum núverandi ástand
okkar fæðast af fyrri hlekk sem fæðist af enn öðrum hlekk aftur í
tímann, og svo framvegis; meðvitund okkar breiðist út frá einum
hlekk til annars í fortíðinni; hún eignar sér hann að því marki sem
hún tengir hann við nútíðina. […] Persónuleg samsemd okkar er
þar af leiðandi ekki eins og gjarnan er talið, frumleg forsenda með-
vitundarinnar: hún er ekki nema beint eða óbeint, samfellt eða slitr-
ótt, fortíðarbergmál í nútíðarskynjun okkar.42
Það er þessi hugsanlega rofna minningakeðja sem Emmanuel Carrère
reynir að lagfæra í skáldsögum sínum, en það er ekki hægt nema hver og
einn gangist við sínum hluta sektarinnar og ef til vill ábyrgðinnar.
Að dæma gjörðir sínar
Til eru hugsuðir, eins og Marquis de Sade, sem hafna sjálfri hugmynd-
inni um sekt og sjá manninn eingöngu sem hluta náttúrunnar, sem er
ekki í sjálfu sér góð.43 Slíkur hugsunarháttur er andstæður þeirri hugsun
41 Miguel de Unamuno, Le sentiment tragique de la vie, París: Gallimard, 1912, bls.
49.
42 Jules Lachelier, Psychologie et Métaphysique, París: P.U.F., 1948 [1885], bls. 14–16.
43 „Til hvers að hegna manni fyrir það eitt að hafa hraðað til frumefnanna óverulegu
broti af efni sem hlýtur hvort sem er að snúa þangað aftur og sem þessi sömu
frumefni nota til ýmissa hluta, um leið og það berst þeim?“, D.-A.-F. de Sade,
Histoire de Juliette ou les prospérités du vice, Œuvres complètes, París: Cercle du Livre
Précieux, 1966–1967, 9. bindi, bls. 182–183.
LEyNDARMÁL EMMANUELS CARRèRE AFHJúPUÐ