Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 37
37
og fram kom hér að framan þá töldu frumkvöðlar hans að náin samvinna
Evrópuríkja væri besta leiðin til að binda enda á langvarandi stríðsástand í
álfunni. Með því að beygja sig undir yfirþjóðlegt vald hafa þátttökuríkin í
Evrópusamrunanum fórnað hluta hins helga fullveldis síns til þess að verja
það, á svipaðan hátt og menn yfirgáfu einstaklingsfrelsið í ríki náttúrunnar,
að sögn Johns Locke, „til að varðveita líf sitt, frelsi og fé, eða það sem ég
nefni einu nafni eignir“.35 Svipaðar ástæður lágu vitanlega að baki stofnun
alþjóðasamtaka á borð við Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið,
þótt hvorugt þessara samtaka hafi gengið jafn langt og Evrópusambandið í
því að takmarka fullveldi þátttökuríkjanna.
Þróun ESB á síðustu árum hefur ekki aðeins mótast af sögu átaka á milli
Evrópuríkja heldur markast hún einnig með beinum eða óbeinum hætti af
því margþvælda fyrirbæri sem ýmist hefur verið kallað „hnattvæðing“ (e.
globalization) eða „alþjóðavæðing“ (e. internationalization) á íslensku. Áhrif
hnattvæðingar á Evrópusamrunann eru margvísleg, og þá ekki síst þau að
afmörkun þjóða verður stöðugt óskýrari eftir því sem samskipti þeirra verða
fjölbreyttari og flóknari. Frá upphafi hefur eitt helsta einkenni þjóðríkja
verið sú tilfinning íbúanna að eitthvað sameini þá innbyrðis og greini þá
um leið frá íbúum annarra þjóðríkja. Þar er gjarnan vísað til þátta eins og
tengsla fólks við ættjörðina, tungumála, trúarbragða, minninga um merka
menn og atburði, og sameiginlegrar sögu, ef ekki sameiginlegs uppruna.
Þessir þættir mynda það sem kalla má merkingarvef þjóðarinnar – eða
þjóðmenninguna. Í hnattvæddum heimi verða slík þjóðleg sérkenni sífellt
óljósari, og þess vegna verða þau ótengdari því sem þau eiga að tengjast.36
Þetta hefur ekki dregið úr áhuga fólks á þjóðlegri sérvisku – þvert á móti
er hún í tísku sem aldrei fyrr. Etnísk matargerð nýtur til að mynda mik-
illa vinsælda um heim allan, og eru ítölsk, kínversk, taílensk og indversk
veitinga hús nú rekin í flestum borgum heimsins. Í sjálfu sér ber slík flokk-
un veitingahúsa vott um samræmingaráráttu þjóðríkjanna, þar sem Ítalir,
Kínverjar eða indverjar sjálfir hafa yfirleitt tengt matarmenningu sína við
ákveðin héruð innan landanna fremur en við þjóðirnar í heild, en slíkur
munur vill mást út þegar menningin flyst til ókunnra stranda. Það sem
meira er, nú eru Ítalir farnir að taka vinsæl hráefni, sem eiga sér enga hefð
á Ítalíu, inn í sína eigin matargerð frá erlendum „ítölskum“ veitingahús-
35 John Locke, Ritgerð um ríkisvald, Atli Harðarson þýddi, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1993 [1689], § 123, bls. 154.
36 Saskia Sassen, Losing Control. Sovereignty in an Age of Globalization, New york: Col-
umbia UP, 1997.
EVRÓPUSAMRUNiNN OG ÞJÓÐRÍKiN